Innlent

Sátt yrði rofin um útsvarsgreiðslur

Sveinn Arnarsson skrifar
Fyrirhugaðar breytingar á lögum um útsvar leggjast ekki vel í Reykjavíkurborg.
Fyrirhugaðar breytingar á lögum um útsvar leggjast ekki vel í Reykjavíkurborg.
Reykjavíkurborg hefur sent frá sér umsögn um fyrirhugaðar breytingar á lögum um lágmarksútsvar sveitarfélaga. Bendir Reykjavíkurborg á að hluti af útsvari reykvískra skattborgara fari í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem áfram renni til sveitarfélaga á landsbyggðinni til reksturs skóla.

„Minni sveitarfélög fá sum meira en helming tekna sinna á þennan hátt frá skatt- og útsvarsgreiðendum í öðrum sveitarfélögum til að standa undir nauðsynlegri grunnþjónustu.“ Einnig segir í umsögninni að „þar með væri jafnframt rofin hin sæmilega sátt sem ríkt hefur um að íbúar stærri sveitarfélaga greiði útsvar til hinna minni til að þau geti veitt grunnþjónustu.“

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gagnrýnir þá hugmynd að afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga og telur hugmyndir þess efnis varhugaverðar.

„Lágmarksútsvar er haft til að búa ekki til þá freistingu fyrir sveitarfélög að vera með litla þjónustu og lága skatta og treysta því svo að íbúar flytji til stærri sveitarfélaga þegar þeir þurfa á þjónustu að halda. Hugmyndir oddvita Skorradalshrepps, sem er með 58 íbúa og nær enga þjónustu, í frétt Fréttablaðsins eru ágætt dæmi um slíka hugsun. Honum finnst spennandi að laða að sér efnameira fólk sem þarf ekkert frá sveitarfélaginu, og veita því afslátt af sköttum. Væntanlega í trausti þess að það flytji svo lögheimilið aftur ef þörf á þjónustu breytist,“ segir Dagur.

Hjalti Jóhannesson, landfræðingur hjá rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, telur varhugavert að lítil sveitarfélög sem búa við góðar tekjur vegna stóriðju og virkjana geti lækkað útsvar niður úr hófi og þannig veitt íbúum skattaafslátt. „Fljótsdalshreppur er gott dæmi um slíkt sveitarfélag sem býr við þau skilyrði að fá gríðarlegar tekjur af stóriðju. Kárahnjúkavirkjun er í þeirra landi og því getur sveitarfélag eins og þetta gripið til þess að lækka útsvar. Þetta getur ýtt undir falda búsetu í sveitarfélaginu, að menn flytji lögheimili í sveitarfélagið en búi ekki þar að staðaldri.“

Hjalti telur það heppilegra ef sveitarfélög á stærra svæði njóti góðs af svona stórum virkjunum og stöðvarhúsum. „Þá eru meiri líkur á að peningum sé vel varið og nýtist til þeirrar þjónustu sem þarf að sinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×