Innlent

Innihald rotþróa til uppgræðslu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Næg verkefni eru í uppgræðslu víða um land. Myndin er frá Mýrdalssandi.
Næg verkefni eru í uppgræðslu víða um land. Myndin er frá Mýrdalssandi. Fréttablaðið/GVA
„Þetta verður aldrei þannig að það verði bara sogið upp úr rotþrónum og því svo frussað yfir landið,“ segir Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, þar sem til stendur að kanna notkun seyru til landgræðslu.

Bæjarstjórnin samþykkti í síðustu viku að hefja samningaviðræður við Landgræðslu ríkisins og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands um meðhöndlun og móttöku á seyru. Skoða á aðkomu fleiri sveitarfélaga í Árnessýslu að verkefninu.

Sveinn Steinarsson
Hverfur ekki af sjálfu sér

„Blessuð seyran hverfur ekki af sjálfu sér,“ segir Sveinn Steinarsson. „Það þarf að finna henni farveg og nú eru menn að horfa til þess að nota hana við landbætur.“

Sveinn undirstrikar að verkefnið sé á frumstigum hvað varði Ölfus. Rætt er um svæði Landgræðslunnar norðan og vestan við Þorlákshöfn. „Við höfum svo sem næg landsvæði sem þarf að græða upp, það er ekki málið. Það þarf að finna stað sem er heppilegur og sátt getur orðið um.“

Seyra fellur til í sívaxandi mæli, meðal annars vegna aukins fjölda sumarhúsa sem rotþrær standa við. Sveitarfélagið losar 250 til 270 rotþrær og það mun skila um níu tonnum af þurrefni. Að sögn Sveins snýst verkefnið í raun um að koma seyrunni fyrir í sátt við umhverfið.

Allir standa frammi fyrir vandanum

„Það eru allir að tæma rotþrær einhvers staðar og það standa meira og minna öll sveitarfélög nú orðið frammi fyrir þeirri spurningu hvað gera eigi við seyruna. Sorpa er, að því er mér skilst, hætt að taka við þessu og þá verða menn að finna út úr því, sjálfir eða í samvinnu við aðra,“ segir Sveinn sem, eins og fram kemur hér í upphafi, undirstrikar að ekki eigi að sprauta seyru nánast beint úr rotþróm salerna yfir landið.

„Það væri ógeðslegt ef það væri gert og það stendur ekki til,“ ítrekar Sveinn. Seyran sem ekki er blönduð kalki verður sett ofan í plægða jörð. „Menn eru bara að þróa leiðir til að nýta þetta, láta hringrásina virka og græða landið með frábærum áburði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×