Viðskipti innlent

Mikil óvissa um þróun launa og verðlags

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Það er víðar en hjá Hagstofunni sem rýnt er í hagtölur. Hér má sjá sérfræðinga Kauphallarinnar spá í veltu verðbréfa.
Það er víðar en hjá Hagstofunni sem rýnt er í hagtölur. Hér má sjá sérfræðinga Kauphallarinnar spá í veltu verðbréfa. Fréttablaðið/Anton
Hagvöxtur verður 2,7 prósent í ár gangi nýbirt spá Hagstofu Íslands í Hagtíðindum eftir. Spáin nær til áranna 2014 til 2018. Á næsta ári gerir Hagstofan ráð fyrir því að hagvöxtur verði 3,3 prósent og svo 2,5 til 2,9 prósent 2016 til 2018.

Spá Hagstofunnar á þessu ári og næsta er 0,2 prósentustigum undir spá sem Seðlabankinn birti í síðustu viku. Bankinn lækkaði þá, vegna hægari vaxtar fjárfestingar, spá sína um hagvöxt á þessu ári úr 3,4 prósentum í 2,9. Hagstofan segist gera ráð fyrir að fjárfesting aukist um 14 prósent á þessu ári, 18,7 á því næsta og 14,6 prósent 2016. „Gert er ráð fyrir að stóriðjufjárfesting dragist saman árin 2017 og 2018 sem leiðir til þess að fjárfesting stendur í stað þau ár,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Þá spáir Hagstofan 2,2 prósenta verðbólgu á þessu ári, 2,7 prósentum 2015, 3,0 prósentum 2016, en fari niður í 2,6 prósent árið 2018.

Tekið er fram í spánni að töluverð óvissa sé um þróun launa og verðlags á næsta ári vegna kjarasamninga sem þá losni. Spá Hagstofunnar er líka heldur undir spá Greiningar Íslandsbanka sem birt var í gær. Þar er spáð 3,0 prósenta verðbólgu á næsta ári og 3,1 yfir árið 2016.

Í spá Íslandsbanka eru helstu forsendur sagðar að íbúðaverð hækki um fimm til sjö prósent á hverju ári út spátímann, laun hækki allhratt á næstu misserum og að litlar breytingar verði á gengi krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×