Viðskipti innlent

Kanadískt fyrirtæki vill reisa hleðslustöðvar hér á landi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Even, sem er lengst til vinstri á myndinni, var viðstaddur opnun á nýrri hleðslustöð Sun Country Highway í júní síðastliðnum.
Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Even, sem er lengst til vinstri á myndinni, var viðstaddur opnun á nýrri hleðslustöð Sun Country Highway í júní síðastliðnum.
Fyrirtækið Sun Country Highway vill reisa hleðslustöðvar fyrir rafbíla hér á landi. Fyrirtækið hefur sett upp um 2.500 stöðvar í Kanada og horfir nú til Evrópu og vill byrja á Íslandi strax á næsta ári.

Þetta segir Kent Rathwell, stofnandi og forstjóri Sun Country Highway. Rathwell segir stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum hafa hvatt eigendur fyrirtækisins til að horfa til Íslands. Hann nefnir sérstaklega ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í september síðastliðnum.

„Forsætisráðherra ykkar hélt þar athyglisverða ræðu um loftslagsmál. Tækjabúnaður okkar getur aðstoðað við að framfylgja þeirri stefnu sem þar var lögð fram og boðið íbúum Íslands annan valkost en ökutæki sem ganga fyrir kolefnaeldsneyti,“ segir Rathwell.

Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Even og rafbílasali, hefur átt í samstarfi við Sun Country Highway vegna hugsanlegrar komu fyrirtækisins hingað til lands.

„Hvort sem það þýðir að fyrirtækið vilji setja hér upp 300 eða hundrað hleðslustöðvar veit ég ekki. En við þyrftum að setja þessa þjónustu upp í um hundrað bæjum hér á landi en þetta er ekkert flókið mál og þyrfti ekki einu sinni aðkomu stjórnvalda,“ segir Gísli.

Fyrirtæki hans hefur sett upp tvær hleðslustöðvar hér á landi. Önnur er staðsett í Kringlunni og rekstur hennar byggir að sögn Gísla á svipuðu viðskiptamódeli og því sem Sun Country Highway hefur notast við.

„Þar borgar Kringlan fyrir rafmagnið og nýtur góðs af viðskiptum við rafbílaeigendur. Í Kanada er þjónusta Sun Country oftast ókeypis fyrir rafbílanotendur og er sett upp á stöðum þar sem fyrirtæki hafa hag af því að hafa hleðslustöðvar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×