Viðskipti innlent

Höfum gengið lengra en nágrannalöndin

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands Fréttblaðið/GVA
Við innleiðingu reglugerða um verðbréfamarkaði hefur verið þrengt meira að starfsemi þeirra hér en gerist í nágrannalöndunum. Kauphöllin (Nasdaq Iceland) birti í gær skýrslu með ráðleggingum um hvernig auka mætti virkni og gagnsemi verðbréfamarkaðar hér.

Dæmi um reglur þar sem lengra er gengið hér en í nágrannalöndunum eru kvaðir um skráningarlýsingar vegna smærri útboða. Í lögum um verðbréfaviðskipti hér er veitt undanþága frá gerð lýsingar ef heildarsöluverð verðbréfa er undir 100.000 þúsund evrum (rúmum 15,4 milljónum króna) á 12 mánaða tímabili.

„Í Svíþjóð eru þessi mörk 2,5 milljónir evra [386 milljónir króna] og í Danmörku ein milljón evra [154 milljónir króna],“ segir í skýrslu Kauphallarinnar. Þá er bent á að í Finnlandi sé viðmiðið 1,5 milljónir evra (231 milljón króna), en sé útbúið skráningarskjal í samræmi við reglur MTF markaðar (eins og First North) þá færist mörkin upp í fimm milljónir evra (772 milljónir króna).

Mikill tilkostnaður fylgir gerð lýsinga og er áréttað í skýrslunni mikilvægi þess að fyrirtæki geti sótt sér fjármagn með sambærilegum hætti og í nágrannalöndunum.

Þá hefur villst inn í reglugerðir hér ákvæði um að fjármálafyrirtæki ein geti sinnt umsjón með töku til viðskipta og gerð lýsinga. Slíkt ákvæði er ekki sagt að finna í nágrannalöndum okkar.

„Fleiri valkostir og aukinn fjölbreytileiki auðveldar félögum í skráningarhugleiðingum að finna ráðgjafa sem þeim hentar, eykur samkeppni og getur þannig lækkað kostnað við skráningu.“

Lagðar eru fram í skýrslunni tíu leiðir til umbóta, ýmist fallnar til þess að auðvelda fyrirtækjum leiðina og veru á markaði, eða til að glæða áhuga fjárfesta á verðbréfamarkaði. 

Þá er einnig lögð fram áætlun um hvernig og hvenær hrinda mætti þeim í framkvæmd. Gangi allt eftir verða þær fyrstu komnar til framkvæmda í lok þessa árs og þær síðustu á haustdögum næsta árs.

„Miklar vonir eru bundnar við grósku í nýsköpun og vöxt smærri fyrirtækja sem einn megindrifkraft hagvaxtar á komandi árum, en takmarkaður aðgangur margra smærri fyrirtækja að fjármagni flækir málið,“ er haft eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, í tilkynningu um skýrsluna.

Með virkari verðbréfamarkaði standa vonir til þess að samkeppni aukist á fjármálamarkaði með fleiri valkostum fyrirtækja í fjármögnun en bankalánum einum.

Tillögur í skýrslu Kauphallarinnar

 1 Rýmka undanþágu frá birtingu lýsinga. (Verði lokið 28.02.2015)

 2 Rýmka heimildir um umsjón með töku til viðskipta og gerð lýsinga. (28.02.2015)

 3 Stytta ferli við töku til viðskipta. (31.05.2015)

 4 Staðlaðir skilmálar skuldabréfa. (30.09.2015)

 5 Auka fræðslu til markaðsaðila. (31.05.2015)

 6 Auka gagnsæi varðandi túlkun Kauphallarinnar á eigin reglum og viðurlagabeitingum. (31.12.2014)

 7 Auknar heimildir lífeyris- og verðbréfasjóða til verðbréfalána. (28.02.2015)

 8 Styrkja verðmyndun á skuldabréfamarkaði þegar mikil óvissa er til staðar. (31.01.2015)

 9 Rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á MTF. (31.12.2014)

10 Skattafrádráttur fyrir einstaklinga til hlutabréfakaupa. (31.03.2015)


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×