Viðskipti innlent

Hófleg hækkun hlutabréfa á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
IFS greining telur afar líklegt að Síminn verði skráður.
IFS greining telur afar líklegt að Síminn verði skráður. Fréttablaðið/Stefán
Hækkun bréfa á íslenskum hlutabréfamarkaði verður hófleg að meðaltali á næsta ári, að mati ráðgjafafyrirtækisins IFS greiningar. Spáir fyrirtækið því að árshækkun þeirra gæti orðið á bilinu 3-9 prósent. Þetta kemur fram í greiningu á markaðnum sem fyrirtækið birti í gær.

Þá telur fyrirtækið að næsta ár verði að líkindum þokkalegt hvað varðar fjölda nýrra félaga í Kauphöll, að minnsta kosti á aðallistann. Það er þó ekki ný saga að skráningar hafa hvert ár frá hruni verið fáar og færri en spáð var fyrirfram.

IFS telur að einu félögin sem telja megi nær öruggt að komi á markað á árinu séu fasteignafélögin Reitir og Eik og Síminn. „Öll eru þau líkleg til að bjóða bréf í frumútboði eftir að ársreikningur 2014 liggur fyrir og áður en fyrri árshelmingur er allur.

Ástæða er til að ætla að útboð félaganna verði fremur smá í sniðum og fyrst og fremst hugsuð til að ná tilætluðum fjölda hluthafa til að hljóta skráningu á aðallista og til að fá verðmyndun markaðar á hlutabréfin,“ segir í greiningunni.

Þá segir að félagið Promens sé einnig hugsanlegur og títt ræddur kandídat. Talsverð óvissa ríki hins vegar um skráningaráform þess. „Seint á síðasta ári gáfu forsvarsmenn Promens það út að stefnt væri á skráningu fyrir lok árs 2014. Ekki er líklegt að það markmið náist úr þessu,“ segir í greiningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×