Innlent

Nýbúinn hefur gefið 100 milljarða

Svavar Hávarðsson skrifar
Að meðtalinni síðustu makrílvertíð hefur þessi nýbúi í íslenskum sjávarútvegi fært þjóðarbúinu um 100 milljarða króna í auknar útflutningstekjur frá árinu 2007. Eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefur innan þessa tímabils tekið stakkaskiptum; er nú jákvæð um 107 milljarða króna en var neikvæð um 80 milljarða króna í lok hrunársins 2008. Er það að þakka endurskipulagningu fyrirtækjanna og niðurgreiðslu skulda.Þessu má m.a. finna stað í Sjávarklasinn á Íslandi: Efnahagsleg umsvif og afkoma 2013; fjórðu greiningunni á umfangi og afkomu sjávarútvegsins og hliðargreina hans sem Íslenski sjávarklasinn mun senda frá sér. Það eru hagfræðingar Sjávarklasans, þeir Bjarki Vigfússon og Haukur Már Gestsson, sem unnu samantektina ásamt framkvæmdastjóranum, Þór Sigfússyni.

Bjarki Vigfússon og Haukur Már Gestsson.
Þáttaskil

Nýliðið fiskveiðiár markar þáttaskil í atvinnugreininni að mati höfunda. Því ráða tilkynningar um stóraukna fjárfestingu í nýjum fiskiskipum sem væntanleg eru til landsins á næstu árum.„Í sjávarútvegsfyrirtækjunum er það kannski markverðast að eiginfjárstaðan er víða orðin góð og fjárfesting í nýjum skipum, sem er orðin alveg bráðnauðsynleg, er farin að taka við sér. Nú er búið að tilkynna um smíði ellefu nýrra skipa og í þeim kaupum birtast einnig breyttar framtíðaráherslur sjávarútvegsfyrirtækjanna, frystitogararnir eru á undanhaldi og á síðustu tveimur árum sáum við mikinn kipp í útflutningi á ferskum fiski,“ segir Bjarki.Í skýrslunni er bent á að nýsmíði skipa eru send jákvæð skilaboð um bætta hráefnanýtingu og aukna verðmætasköpun sem birtist m.a. í breyttum áherslum í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis og aukinni ferskfiskvinnslu bolfisks síðustu misserin. Tilfærsla frá sjófrystingu til landvinnslu á stuttum tíma segir einnig margt um getu greinarinnar til að bregðast við breyttum ytri aðstæðum og samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum.Makríllinn breytti miklu

„Eftirhrunsárin í íslenskum sjávarútvegi hafa öðrum þræði verið lituð bláum strípum makrílsins, milljörðunum sem hann hefur skilað til þjóðarbúsins og deilunum sem hann hefur valdið. Frá árinu 2007 hefur samanlagt útflutningsverðmæti makríls á Íslandi numið rúmum 76 milljörðum króna og er árið 2014 þá ótalið. Þar af nam útflutningur á árinu 2013 rúmum 21 milljarði króna og útlit er fyrir að árið 2014 verði svipað,“ segja skýrsluhöfundar. Þetta er á allra vitorði. Tæknibyltingin sem er að verða í greininni er kannski fréttir fyrir fleiri.Tæknibylting

Tæknifyrirtæki í sjávarklasanum hafa eflst myndarlega frá árinu 2008 og heildartekjur greinarinnar vaxa nú annað árið í röð um 12-13%. Eru dæmi þess að fyrirtæki með ársveltu upp á hundruð milljóna króna hafi tvöfaldað tekjur sínar á skömmum tíma. Margir stjórnendur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum líta björtum augum á árið 2014 og „bólgnar pantanabækur gefa fyrirheit um gott framhald á næstu misserum. Ástæða er til að búast við meiri vexti milli áranna 2013 og 2014, sérstaklega í ljósi fjárfestingaáætlana í íslenskum sjávarútvegi,“ segir í skýrslunni.„Hvað varðar tæknifyrirtækin erum við að sjá ótrúlegan vöxt í veltu þeirra, þriðja árið í röð. Þarna er að fjölga í hópi fyrirtækja sem telja má stór á íslenskan mælikvarða, sprotarnir eru að verða að meðalstórum og stórum fyrirtækjum með tugi starfsmanna. Hluti af þessu er líka ákveðin samþjöppun þar sem stærri fyrirtæki eru að kaupa öfluga sprota og vaxa þannig,“ segir Haukur Már en bætir við að áframhaldandi vöxtur í tæknigeiranum sé ekki laus við áskoranir. Ógreiður aðgangur að fjármagni, gjaldeyrishöft og takmörkuð geta til að takast á við stór verkefni standa mörgum þeirra fyrir þrifum. Lykilorðið til að eiga möguleika á að takast á við stór verkefni er hins vegar samstarf tækni- og sjávarútvegsfyrirtækja, eins og þegar hafa verið sett á fót innan Sjávarklasans.Fullvinnsla og líftækni

Með hverju árinu sem líður sannast að fullvinnsla afurða er að verða íslenskum sjávarútvegi sífellt mikilvægari. Síðustu áratugi hefur aflameðferð og aflanýting gjörbreyst, og nú er svo komið að það hráefni, sem oft var áður hent, stendur að baki tugmilljarða verðmætasköpunar. Jafnvel það sem var þó nýtt er margfalt verðmætara nú en áður. Lýsi er eitt dæmi þess þar sem samnefnt fyrirtæki er risi á íslenskum heilsuvörumarkaði – með útflutning til 80 landa og leyfi til lyfjaframleiðslu.Á síðustu áratugum hafa einnig byggst upp öflug fyrirtæki í þurrkun fiskafurða en um 10-12 fyrirtæki eru nú á því sviði og fjöldi starfsmanna þeirra líklega um 250-300. Flest þurrkunarfyrirtæki búa yfir afar öflugum tæknibúnaði sem þróaður hefur verið af innlendum tæknifyrirtækjum. Ætla má að á bilinu 50-60 þúsund tonn (ferskt) af hausum séu þurrkuð og flutt út árlega hér á landi. Útflutningsverðmæti þeirra var um átta milljarðar króna árið 2013.Líftækniiðnaður tengdur nýtingu aukaafurða er einn mest spennandi vettvangur sjávarklasans á Íslandi og nokkur fyrirtæki vinna að þróun og sölu slíkra líftækniafurða. Skýrsluhöfundar telja að á Íslandi sé að mörgu leyti einstakur grundvöllur til uppbyggingar öflugs líftækniklasa. Sá grundvöllur byggist annars vegar á miklum auðlindum, bæði til lands og sjávar, og á sérstakri vistfræði landsins, og hins vegar á mannauði og stofnanaumhverfi sem byggt gæti undir slíkan klasa. Skynsamlegt væri að marka öfluga stefnu til framtíðar um uppbyggingu líftækniiðnaðarins á Íslandi í samvinnu ríkis, háskólasamfélagsins, heilbrigðisgeirans og atvinnulífsins.Áhugi á menntun vex

Kannski er það til marks um vöxt og uppgang sjávarklasans á Íslandi að stóraukin aðsókn hefur verið í sjávarútvegstengt nám allt frá árinu 2008. Heildarfjöldi nemenda á fjölmörgum námsbrautum á framhaldsskóla- og háskólastigi jókst um 73% milli áranna 2008 og 2013. Merkja má stóraukinn áhuga ungs fólks á haftengdum greinum og margt bendir til að áhugi á sjávartengdri nýsköpun hafi sjaldan eða aldrei verið meiri.Spurðir um áskoranir sjávarklasans heilt yfir telja þeir Bjarki og Haukur að eitt af því sem líta megi til sé hve mörg lítil fyrirtæki tilheyra þessum klasa, bæði í tækni, líftækni og annarri þróun ýmiskonar. Að þeirra mati þurfa þau að leita leiða til að vaxa og vinna betur saman, þar liggi tækifærið. Um leið og þessi nýsköpunarfyrirtæki eru orðin svolítið stærri, stöndugri og þroskaðri opnist þeim miklu stærri tækifæri til fjármögnunar heldur en þegar þau eru enn agnarsmá. Og með þeirri fjármögnun geti þau svo orðið risar líkt og þeir sem nú standa styrkum fótum á íslenskum markaði.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.