Viðskipti innlent

Yrsa greiddi sér fimm milljónir króna í arð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Yrsa Sigurðardóttir er einn alvinsælasti rithöfundurinn á Íslandi.
Yrsa Sigurðardóttir er einn alvinsælasti rithöfundurinn á Íslandi. Vísir/Daníel
Yrsa Sigurðardóttir ehf., eignarhaldsfélag rithöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, hagnaðist um tæplega 9,8 milljónir króna í fyrra, en hagnaðurinn nam 12,2 milljónum króna fyrir tekjuskatt. Ársreikningnum var skilað til ársreikningaskrár þann 9. október síðastliðinn.

Hagnaður félagsins í fyrra er öllu minni en árið á undan en þá nam hagnaður ársins eftir skatta tæplega 13,6 milljónum króna og hagnaður fyrir skatt var tæplega 17 milljónir króna.

Yrsa greiddi sér fimm milljónir króna í arð á síðasta ári. Eftir arðgreiðsluna nemur eigið fé félagsins rúmlega 19 milljónum króna. Bækur Yrsu hafa notið mikilla vinsælda hér á Íslandi en þær eru einnig gefnar út erlendis. Í fyrra gaf hún út bókina Lygi en árið á undan kom bókin Kuldi út.

Hagnaður félags Yrsu er þó einungis brot af hagnaði Gilhaga ehf., félags Arnaldar Indriðasonar. Fram kom í Viðskiptablaðinu í september að Gilhagi hagnaðist um 82,6 milljónir króna í fyrra eftir skatta. Árið 2012 var hagnaðurinn 139,2 milljónir.

Eigur Gilhaga eru metnar á tæpar 540 milljónir. Þar af eru 104 milljónir bundnar í verðbréfum en 434 milljónir í handbæru fé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×