Viðskipti innlent

Sala á metani meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Framleiðsla Norðurorku á að nægja fyrir 600 fólksbíla á ári til ársins 2030.
Framleiðsla Norðurorku á að nægja fyrir 600 fólksbíla á ári til ársins 2030. Vísir/Auðunn
„Eftirspurnin er meiri en við bjuggumst við og reynsla okkar af þessum fyrsta mánuði hefur því verið góð,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, um reynslu fyrirtækisins af sölu á metani í gegnum nýja afgreiðslustöð á Akureyri sem var opnuð fyrir rúmum mánuði.

„Við gerðum áætlanir til fyrstu sex áranna og okkur sýnist að fyrsta árið, miðað við það sem við höfum séð þennan eina mánuð, gangi vel eftir,“ segir Helgi.

Helgi Jóhannesson
Norðurorka vinnur metan úr gömlum sorphaugum í Glerárdal á Akureyri. Fyrirtækið samdi í fyrra við Olís um markaðssetningu og smásölu eldsneytisins.

„Markaðsstarfið er þó í raun varla farið af stað því þetta er langtímahugsun og við vildum fyrst sjá hvernig þessi stöð myndi ganga og eftir það vinna með Olís að frekari markaðssetningu,“ segir Helgi.

Heildarkostnaður Norðurorku, sem er nánast alfarið í eigu Akureyrarkaupstaðar, vegna metanverkefnisins nemur að sögn Helga um 350 milljónum króna. Verkefnið var fjögur ár í undirbúningi en á þeim tíma dróst sala á nýjum metanbílum saman. Fréttablaðið greindi í janúar síðastliðnum frá því að einungis 69 nýir metanbílar hefðu selst á síðasta ári samanborið við 201 bíl árið 2012. Bifreiðum sem var breytt í metanbíla fækkaði þá einnig úr 195 í 57. 

„Margir spurðu þá hvort við ætluðum að endurskoða okkar áform en þetta er auðvitað langtímaverkefni og þetta gengur vafalaust líka í bylgjum. Hins vegar á ég svolítið erfitt með að skilja af hverju fólk sækir ekki meira í þetta. Eldsneytið er talsvert ódýrara en til dæmis bensín og þau gjöld sem lögð eru á metanbíla eru enn lág,“ segir Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×