Innlent

Þríburarnir dafna vel

Freyr Bjarnason skrifar
Einn þríburanna sem komu í heiminn aðfaranótt sunnudags.
Einn þríburanna sem komu í heiminn aðfaranótt sunnudags. Mynd/Úr einkasafni
Íslensku eineggja þríburarnir sem fæddust í Kaupmannahöfn aðfaranótt sunnudags dafna vel.

„Þetta gengur rosalega vel hjá þeim. Þau reikna með að þurfa að vera kannski mánuð inni á sjúkrahúsinu á meðan þeir eru þetta litlir,“ segir amma drengjanna, Brynja Siguróladóttir, aðspurð.

Hún ætlar að fljúga til Danmerkur til að sjá barnabörnin í næstu viku og hlakkar mikið til. „Þetta er bara yndislegt kraftaverk, það er ekki hægt að segja annað.“

Danskir fjölmiðlar hafa sýnt fæðingunni áhuga og ein sjónvarpsstöð hefur þegar óskað eftir viðtali við foreldrana á sjúkrahúsinu. Foreldrarnir voru ekki tilbúnir í það í gær, enda er móðirin, Karin Kristensen, enn að jafna sig.

Sonur Brynju og faðir þríburanna, Jóhann Helgi Heiðdal, lauk meistaranámi í Danmörku fyrir tveimur árum og hefur búið í Kaupmannahöfn síðan. Systir hans er einnig búsett í borginni og á einmitt von á barni 26. ágúst. „Ég ætlaði að vera mætt á svæðið þegar þau kæmu öll en ég vona að ég verði komin í tæka tíð í þetta sinn,“ segir amman lukkulega.

En þarf hún ekki að flytja út til Danmerkur til að passa öll þessi börn? „Jú, ég held það bara. Ég verð alla vega þrjár vikur núna og svo sjáum við til hvernig allt fer.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×