Innlent

Fæðing eineggja fjölbura eins og að fá fimm rétta í lottóinu

Freyr Bjarnason skrifar
Þórður Óskarsson starfar hjá Art Medica.
Þórður Óskarsson starfar hjá Art Medica. Fréttablaðið/Hari
Þórður Óskarsson, sérfræðingur hjá Art Medica, segir fæðingu íslensku eineggja þríburanna, sem Fréttablaðið greindi frá í gær, vera merkileg tíðindi enda afar sjaldgæft að slíkt eigi sér stað á náttúrulegan hátt.

Þríburarnir voru í sama æðabelgnum en hver í sínum vatnsbelg. Allir höfðu þeir sömu fylgju. Í greininni var haft eftir forstjóra fæðingardeildar Sutter-spítala í Kaliforníu að líkurnar á því að þríburar fæðist með þessum hætti séu um einn á móti hundrað milljónum.

Aðspurður segir Þórður að í raun viti enginn hverjar líkurnar séu. „Þó að ég viti ekki alveg hvað menn hafa fyrir sér í því, þá hefur verið talað um að líkurnar séu allt frá einum á móti 60 þúsundum upp í einn á móti 200 milljónum,“ segir hann og bætir við að fæðingartíðni eineggja þríbura sé lægri en áður.

„Flestir þríburar eru þríeggja (settir upp sem þrír fósturvísar) eða jafnvel settir upp sem tveir fósturvísar þar sem annar skiptir sér. Þegar þessum þungunum fjölgar án þess að það sé fjölgun í hinum þá verður hlutfallið alltaf lægra.“

Þórður líkir tíðni eineggja fjölbura við að fá fimm rétta í lottóinu. „Það getur gerst hvar sem er og er ekki tengt erfðum eða að því er virðist utanaðkomandi þáttum.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×