Innlent

Össur vill að urriðinn fái að njóta vafans

Brjánn Jónasson skrifar
Össur Skarphéðinsson er sérfróður um ísaldarurriðann í Þingvallavatni, og sést hér með 22 punda urriða sem hann veiddi í Öxará.
Össur Skarphéðinsson er sérfróður um ísaldarurriðann í Þingvallavatni, og sést hér með 22 punda urriða sem hann veiddi í Öxará.
Æskilegt væri að Veiðifélag Þingvallavatns setji svipaðar reglur um veiði á urriða í öllu Þingvallavatni og gilda fyrir þjóðgarðinn, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis og auðlindaráðherra, í svari við fyrirspurn Össurs Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.

Samkvæmt reglum þjóðgarðsins verða veiðimenn að sleppa öllum urriða á tímabilinu 20. apríl til 1. júní. Þá mega þeir aðeins veiða með flugu og aldrei af báti.

Össur fagnar því að ráðherrann vilji vernda stofninn. „Veikleikinn í svarinu er hins vegar að ráðherrann segir svart á hvítu að Veiðimálastofnun viti ekki nægilega mikið um stofninn. Þá tel ég svartalágmark að stjórnvöld beiti sér fyrir strangari reglum, sem ættu meðal annars að skylda stangveiðimenn til að sleppa öllum stórurriða þangað til það mat liggur fyrir. Urriðinn á að njóta vafans,“ segir Össur.

Hann segir það mat sérfræðinga að hrygningarstofn hins svokallaða ísaldarurriða sé hugsanlega undir 1.500 fiskum. „Það þarf ekki mikla ofstopaveiði til að höggva stór skörð í svo lítinn stofn fari menn ekki ofurvarlega.“

Össur bendir á að ásókn í urriðann sé að aukast. „Menn eru að byrja að markaðssetja stórurriðann erlendis, og fiskisagan spyrst, enda hvergi í heiminum hægt að veiða jafn stóra urriða og hér á Íslandi, þar sem menn hafa í vor verið að veiða fiska sem líklega losa 30 pund miðað við lengdarmælingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×