Skoðun

Hverjir eru þessir múslimar?

Ólafur Halldórsson skrifar
Ég ætla ekki að fara út í stóra heim með öllum hans stóru, flóknu vandamálum, heldur bara halda mig hér á klakanum og fara á handahlaupum yfir aðstæður þeirra um 1.500 múslima sem hér búa. Það verður seint sagt að þeir séu einsleitur hópur. Þeir koma frá tugum þjóðlanda, úr öllum byggðum heimsálfum og eiga fátt sameiginlegt annað en það að vera múslimar. Nokkrir tugir eða hundruð eru bornir og barnfæddir hér á Fróni, hinir hafa flestir eða allir flækst hingað í leit að góðu lífi, í leit að hamingjunni.

Í flestum þeirra heyrist ákaflega lítið á opinberum vettvangi, af ýmsum ástæðum. Hvar fær maður þá séð þá og heyrt? Það væri vænlegt til árangurs að byrja á að kíkja inn á láglaunavinnustaði; fiskvinnslustöðvar, hreingerningarfyrirtæki, bakarí, sjúkrahús, pitsustað. Einhverjir hafa komist í betri álnir og reka veitingahús og bifvélaverkstæði og nokkrir hafa náð að mennta sig og fengið vinnu við hæfi.

Á kvöldin finnur maður þá helst heima hjá sér, þar sem þeir eru að hjálpa börnunum við heimalærdóm, borða, hlæja og gráta saman, svona rétt eins og annað fólk. Þá trúræknustu má svo gjarnan finna í bænahúsum sínum á kvöldin og á föstudögum, við þá saklausu iðju að vegsama skapara sinn. Þar er reyndar öllum velkomið að líta við og kannski óvitlaust fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja kynnast „alvöru múslimum“. Það er oftar en ekki hellt upp á kaffi eða te eftir bænagjörðirnar. Langt yfir 90% af þessu fólki hefur tandurhreina sakaskrá og engin áform um að breyta því. Eins og meðal annarra þjóðfélagshópa finnast einhverjir svartir sauðir og hafi maður áhuga á að finna þá mætti byrja að leita á öldurhúsum borgarinnar á síðkvöldum. Þetta eru nú hinir hræðilegu múslimar í hnotskurn.

Jákvæð sérstaða

Á Íslandi er dálítil sérstaða, nefnilega sú að þeir hafa ekki einangrast í gettóum með öllum þeim vandræðum sem því fylgir heldur búa dreift; í öllum póstnúmerum borgarinnar og í bæjum úti um allt land. Það hefur sjaldnast verið mikið mál fyrir erlenda múslima, frekar en aðra, að aðlagast íslensku þjóðfélagi, kannski einna helst af því að Íslendingar upp til hópa dæma fólk eftir verðleikum og vinnusemi frekar en uppruna eða trúarbrögðum. Ég held að þessi sérstaða verði að teljast jákvæð.

Það er söguleg staðreynd að hatursfull umræða, fordómar og áróður á opinberum vettvangi eru best til þess fallin að skapa einangrun og biturð, fái þetta að gerjast nógu lengi. Ofstopi og hatur fæðir sjaldnast neitt gott af sér. Sveinbjörg oddviti kvartar yfir því einhvers staðar að vopnin hafi að einhverju leyti snúist í höndunum á henni og gætu jafnvel bitnað á börnunum hennar. Ég vona innilega að svo sé ekki. En mig langar til að benda á að eftir þessa síðustu orrahríð koma múslimsk börn og unglingar grátandi heim og kvarta yfir svívirðingum og einelti. Foreldrarnir reyna að kyssa á bágtið og útskýra að slíkt sé runnið undan rifjum fáfræði, hræðslu og ofstopa sem erfitt er að losna alfarið við og vitna jafnvel í had"þu: Spámaðurinn, friður sé með honum, sagði einhverju sinni: „Verið eins og úlfaldinn, þótt hundarnir gelti og góli við fætur hans gengur hann rólegur sína leið jórtrandi, með höfuðið hátt.“




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×