Skoðun

Aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs: Horfum jákvætt til framtíðar

Vísindamenn skrifar
Í desember 2013 var lögð fram metnaðarfull stefna Vísinda- og tækniráðs sem gerði ráð fyrir að fjármagn til þekkingar- og nýsköpunar yrði aukið verulega á næstu misserum og næði þremur prósentum af vergri landsframleiðslu árið 2016. Á sama tíma var mikil umræða um fjárlagafrumvarpið og afturkall núverandi stjórnvalda á veiðileyfagjöldum sem höfðu að hluta verið eyrnamerkt samkeppnissjóðum og nýsköpun.

Við lestur fjárlagafrumvarpsins fyrir fjárlagaárið 2014 var útilokað að átta sig á því hvernig stjórnvöld ætluðu að ná markmiðum sínum og skapaði þetta mikinn óróa og óvissu innan vísinda- og fræðasamfélagsins.

22. maí síðastliðinn kynnti forsætisráðherra aðgerðaáætlun ríkistjórnarinnar um hvernig stefnu Vísinda- og tækniráðs yrði framfylgt. Aðgerðaáætlunina má finna á vef forsætisráðuneytisins http://www.forsaetisraduneyti.is/vt/. Í stuttu máli byggir áætlunin á því að efla stórlega framlög í samkeppnissjóði og jafnframt að búa til skattalega hvata sem auðvelda og hvetja fyrirtæki til að setja aukið fé í rannsóknir og nýsköpun.

Samkeppnissjóðir

Stjórnvöld hafa nú sagt að þau muni auka fjárframlög til samkeppnissjóða um 2,8 milljarða á kjörtímabilinu, það er um 800 milljónir fjárlagaárið 2015 og um tvo milljarða fjárlagaárið 2016. Það er þó nefnt að þetta sé gert með fyrirvara um fjárlagaferlið og afgreiðslu Alþingis á fjárlögum. Það er því ljóst að Vísinda- og nýsköpunarsamfélagið mun fylgjast grannt með umfjöllun Alþingis um fjárlagafrumvarpið í haust.

Aukin fjárfesting fyrirtækja

Stjórnvöld stefna á að auka fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun um 5 milljarða króna. Skapa á umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau sjái hag í að auka hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi. Sérstaklega er hér horft til skattahvata.

Háskólasamfélagið

Styrkja á fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016 og Norðurlanda árið 2020. Það er ljóst að hækkun framlags í samkeppnissjóði mun einnig styrkja fjármögnun vísindastarfs innan háskólanna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur jafnframt að því að hækka reikniflokka háskólanna, sem er afar mikilvægt. Einnig er stefnt að auknu samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Lokaorð

Undanfarin ár hefur þrengt mjög að vísindasamfélaginu á Íslandi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á nýsköpun, nýliðun ungra vísindamanna og háskólasamfélagið í heild. Með nýrri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, undir forystu forsætisráðherra, er mörkuð braut sem ætlað er að snúa þessari óheillaþróun við. Með því að halda fast í aðgerðaáætlunina og sýna í verki að stjórnvöldum sé alvara með stefnu Vísinda- og tækniráðs verður hægt að endurvinna traust milli stjórnvalda og vísindasamfélagsins, öllum til hagsbóta.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor

Erna Magnúsdóttir, rannsóknasérfræðingur

Kristján Leósson, vísindamaður

Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor

Þórarinn Guðjónsson, prófessor

Þórólfur Þórlindsson, prófessor

Þórunn Rafnar, vísindamaður stjórn Vísindafélags Íslendinga




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×