Skoðun

Svarti spegillinn

Stefán Máni skrifar
Yfir gjaldkerastúkunum í Íslandsbanka í Lækjargötu er stórt auglýsingaplakat. Á myndinni er ung stúlka í júdógalla í íþróttasal. En hún er ekki í júdó heldur í símanum, hún starir á skjáinn og er að gera eitthvað – hún er ekki hér, hún er annars staðar. Samtíminn í hnotskurn.

Auglýsingin er ekki viðvörun frá Lýðheilsustofnun heldur hvatning frá bankanum sem samþykkir þessa staðalímynd, hann vill að séum ekki hér heldur í símanum, að nota appið þeirra. Við lifum í ríku samfélagi þar sem næstum allir á aldrinum 10 til 50 ára ganga um með 100.000 króna leikfang í hendinni, litla tölvu sem er líka sími og lítur út eins og svartur spegill. Þetta er magnað tæki sem er sítengt við stafrænan alheim af öllu og engu, góðu og slæmu – við dýrkum tækið og dáum og verðum alltaf að eiga nýjustu útgáfuna því að við viljum ekki dragast aftur úr, verða púkó, missa af einhverju sem við erum samt ekki alveg viss um hvað er.

Við hittumst á kaffihúsi en tölum varla við vini okkar, við störum í svarta spegilinn – kíkjum í það minnsta reglulega á hann, og alveg örugglega miklu oftar en við höldum eða viljum viðurkenna. Við laumumst til að kíkja á hann á fundum, í bílnum, í bíó, alls staðar og hvar sem er. Til að gá að hverju, vitum við það? Börnin okkar fylgjast með okkur stara í spegilinn. Við veitum þeim minni athygli, þau verða pirruð, þau gera okkur pirruð og á endanum réttum við þeim símann svo að við fáum smá frið. Þau eru afskipt og verða síðan ofvirk af of mikilli örvun.

Við erum líka að verða ofvirk, höldum ekki athyglinni nema í fáeinar sekúndur, missum þráðinn og okkur fer að leiðast – allt verður að vera stutt og sniðugt, í lit og með hljóði. Við tökum myndir til að sanna að við höfum gert þetta, verið þar, en það sem við gerðum var bara að taka mynd og við vorum ekki þar heldur í símanum. Við mötum Netið af upplýsingum um okkur, við höldum að við séum í leik en það er verið að leika með okkur. Við flökkum milli samfélagsmiðla, lækum, sérum, gerum eitthvað sniðugt, njósnum og skoðum kettlingamyndbönd – við fjarlægjumst annað fólk, við verðum smám saman andfélagsleg því að samskiptahæfnin dofnar, við erum einangruð inni í svarta speglinum, kunnum ekki lengur kurteisi, sýnum ekki tillitssemi og verðum alltaf sjálfhverfari og sjálfhverfari þangað til að við hverfum inn í sjálf okkur. Erum við í alvörunni viðstödd eigið líf? Eigum við okkur líf? Eða erum við horfin inn í svarta spegilinn?




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×