Skoðun

Dögun vill meiri jöfnuð og minna mas

Eva Guðrún Gunnbjörnsdóttir skrifar
Það geta flestir sammælst um að Reykjavík er frábær borg. Einnig geta flestir sammælst um að það er gott að búa í velferðarsamfélagi þar sem hugsað er um náungann. Þeir sem verða fyrir atvinnumissi fá atvinnuleysisbætur og fólk sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum getur fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Þessi fjárhagsaðstoð er þó ekki í takti við raunveruleikann. Okkur í Dögun finnst að fjárhagsaðstoðin mætti vera hærri. Þeir sem hafa enga atvinnu eða þurfa af öðrum ástæðum að þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman.

Margir geta það hreinlega ekki. Það er sér í lagi afar erfitt fyrir einstæða foreldra að lifa af fjárhagsaðstoð. Húsaleiga í borginni er há og margir sem eru í eigin húsnæði þurfa að greiða háar fjárhæðir mánaðarlega af húsnæðislánum. Skuldugir fasteignaeigendur sem vilja selja húsnæði sitt og fara á leigumarkað hætta sér ekki til þess eins og staðan er í dag. Barnafólk berst í bökkum og í Reykjavík þurfa foreldrar t.d. að borga fyrir skólamáltíðir barna sinna, sem ekki var áður. Það má segja að reikningar hrannist upp hjá þeim sem hafa úr litlu að moða. Dögun í Reykjavík lítur ekki undan þeirri staðreynd að aukin fátækt er raunveruleiki fjölda fólks í borginni. Það er skýrt markmið Dögunar í Reykjavík að koma betur til móts við lágtekjufólk.

Það þarf að bregðast við bráðavanda á húsnæðismarkaði. Dögun í Reykjavík vill að Félagsbústöðum hf. verði falið að byggja 300-400 bráðabirgðaíbúðir í borginni strax eftir kosningar. Dögun vill einnig að fjárhagsaðstoð til foreldra dugi fyrir framfærslu heimilisins með tilliti til fjölda barna. Einnig vill Dögun í Reykjavík að frístundakortið verði tekjutengt þannig að börn frá efnaminnstu heimilunum fái mestan styrk. Stefna Dögunar í Reykjavík er velferðar- og fjölskyldustefna. Meiri jöfnuð og minna mas, X-T.




Skoðun

Sjá meira


×