Viðskipti innlent

Saksóknari krefst sex ára dóms yfir Lárusi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Málflutningi í Aurum-málinu lýkur í dag og næst er því komið að dómsuppsögu. Fréttablaðið/GVA
Málflutningi í Aurum-málinu lýkur í dag og næst er því komið að dómsuppsögu. Fréttablaðið/GVA
„Ég átti frumkvæðið að því,“ sagði Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, í vitnisburði sínum í Aurum Holding-málinu í gær, spurður hvers vegna hann lét af störfum sem bankastjóri.

Bjarni var meðal síðustu vitna sem gáfu skýrslu í málinu en eftir það hófst munnlegur málflutningur ákæruvaldsins og verjenda.

Bjarni sagðist hafa skynjað að breytingar væru í aðsigi með nýjum stórum eigendum bankans og því ákveðið að stíga til hliðar.

„Ef það yrði kallað til hluthafafundar þá væri þarna einn aðili sem færi með valdið í félaginu. Þegar allt kom saman þá fannst mér þarna tilefni til að stíga til hliðar, ég hef verið talsmaður dreifðs eignarhalds,“ sagði Bjarni.

Sérstakur saksóknari fer fram á fangelsisrefsingar yfir ákærðu í málinu sem eru ákærðir fyrir umboðssvik eða hlutdeild í þeim vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis til félagsins FS38 ehf. í júlí árið 2008 vegna kaupa félagsins á hlut í Aurum Holding Ltd. Farið er fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra, en fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum stærsta eiganda bankans, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra.

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, lauk máli sínu í gær en aðrir verjendur flytja ræður sínar í dag og verður málið síðan dómtekið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×