Viðskipti innlent

„Mátt þú eiga þessi símtöl?“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Pálmi Haraldsson fjárfestir bar vitni í Aurum-málinu í gær þar sem hann sagðist hafa verið erfiður í samningum.
Pálmi Haraldsson fjárfestir bar vitni í Aurum-málinu í gær þar sem hann sagðist hafa verið erfiður í samningum. Vísir/Daníel
Framburður tveggja vitna frá Dúbaí stangaðist á við aðalmeðferð Aurum-málsins sem var fram haldið í gær.

Í málinu eru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns í júlí 2008 sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf., sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd. Allir neita þeir sök.

Tawhid Abdullah, sem var forstjóri félagsins Damas, sagði það hafa verið Aurum sem kom fram með kaupverðið 100 milljónir punda, sem hann hefði á endanum talið of hátt og þeir því ákveðið að viðskiptin gengju ekki eftir.

Nikhil Sengupta var starfsmaður á fyrirtækjasviði NBD, National Bank of Dubai, en hann sagðist hafa verið í ríku samstarfi við Damas og hafa bent því á Aurum sem vænlegan fjárfestingarkost. Þannig hefðu viðræður hafist en þegar bankakreppan hófst haustið 2008 hefði þeim verið sjálfhætt vegna aðstæðna. Hann sagði Aurum hafa sett fram hugmynd sína um verðið sem Damas hefði talið eðlilegt verð fyrir félagið.

Pálmi Haraldsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.Vísir/Daníel
Fleiri gáfu skýrslu í málinu í gær, þar á meðal Pálmi Haraldsson sem sagðist hafa talið viðskiptin með Aurum til hagsbóta fyrir Glitni, hann hefði verið erfiður í samningum við bankann en þarna hefðu einfaldlega átt sér stað hefðbundin viðskipti.

Pálmi var hissa á því þegar sérstakur saksóknari spurði hann út í símtal sem hafði verið hlerað milli Pálma og lögmanns hans. „Mátt þú eiga þessi símtöl?“ spurði Pálmi fyrir dómi í gær.

Fyrrverandi stjórnarmenn í Glitni á árunum 2007 til 2008 gáfu einnig skýrslu í gær, en deilt hafði verið um hvort þeir hefðu bein tengsl við málið og mættu þar af leiðandi gefa skýrslu eða ekki.

Lárus Welding mætir til leiks í gær.Vísir/Daníel
Öllum bar þeim saman um að hafa ekki orðið varir við að Lárus Welding hefði verið beittur þrýstingi af hálfu stærstu hluthafa bankans né heldur að bankinn hefði tekið sérstakt tillit til hagsmuna stærstu hluthafanna í rekstri sínum.

Aðalmeðferðin heldur áfram í dag þegar síðustu vitnin gefa skýrslu. Meðal þeirra sem bera vitni í dag er Bjarni Ármannsson.

Þá hefst einnig munnlegur málflutningur þar sem sérstakur saksóknari og verjendur halda ræður sínar. Málflutningurinn mun standa yfir fram á föstudag þegar málið verður dómtekið.


Tengdar fréttir

Báru vitni frá Dubai

Báðir sögðu að verðið á Aurum, 100 milljónir sterlingspunda hefði komið frá félaginu sjálfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×