Lífið

Hláturinn gleður og eflir frið á milli manna

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
„Ég hætti sjálf að hlæja strax sem krakki vegna þess að hinir krakkarnir hlógu alltaf að því hvernig ég hló,“ segir Ásta.
„Ég hætti sjálf að hlæja strax sem krakki vegna þess að hinir krakkarnir hlógu alltaf að því hvernig ég hló,“ segir Ásta. Vísir/Daníel
Fyrsti sunnudagur í maí er alþjóðlegur hláturdagur. Hann er haldinn hátíðlegur í um sjötíu löndum, þar með talið á Íslandi. Upphafsmaður hláturjógahreyfingarinnar er indverski læknirinn dr. Madan Kataria. Hann stofnaði fyrsta hláturklúbbinn árið 1995 ásamt konu sinni Madhuri. „Hann trúir því að það sé hægt að efla frið á milli manna í heiminum með því að fólk hlæi saman og gleðjist saman á þessum degi,“ segir Ásta Valdimarsdóttir hláturjógakennari, sem hefur veg og vanda af framkvæmd hláturdagsins hér á landi.



Í Reykjavík er haldið upp á daginn með hlátursamkomu í Laugardalnum og hefst hún samkvæmt venju klukkan 13 við gömlu þvottalaugarnar. „Ég byrjaði með þetta fyrir rúmum tíu árum,“ segir Ásta. „Síðustu árin höfum við verið inni í Laugardal. Við byrjuðum á því að hafa þetta hláturgöngu en svo kom í ljós að margir sem mæta eiga erfitt með gang en hafa ákaflega gaman af því að taka þátt í þessu með okkur þannig að við höldum núorðið kyrru fyrir og hlæjum og gerum hláturæfingar.“



Ásta segist vel vita að margir hafi efasemdir um gildi hláturjógans, það hafi hún líka haft sjálf í upphafi. „Ég bjó úti í Noregi um tíma og sá auglýsingu um námskeið í hláturjóga í blaði. Mér fannst þetta voðalega asnalegt fyrst og hætti meira að segja við að mæta á fyrsta námskeiðið sem ég skráði mig á. Svo heyrði ég viðtal við konuna sem var með þessi námskeið og það höfðaði sterkt til mín. Ég hætti sjálf að hlæja strax sem krakki vegna þess að hinir krakkarnir hlógu alltaf að því hvernig ég hló. Hobbýið mitt hefur lengi verið að syngja og þegar ég fór í söngnám var mér sagt að ef ég gæti ekki hlegið þá gæti ég aldrei sungið. Þannig að ég sótti aftur um, fór á námskeiðið og hef aldrei séð eftir því.“



Ásta segir hláturjógað sífellt vera að sækja í sig veðrið og nú séu margir jógakennarar og íþróttakennarar farnir að benda nemendum sínum á hvað það sé gott og hollt að hlæja. „Þannig að umræðan í þjóðfélaginu er alltaf að aukast.“



Grundvöllurinn í hláturjóganu er að kalla fram barnslega gleði, að sögn Ástu, og endurupplifa þá tilfinningu barnsins að geta hlegið að öllu. „Það finnst mörgum það asnalegt að eiga að hlæja eftir pöntun og eiga erfitt með að trúa hversu auðvelt það er. Um leið og sú stemning er komin á að allir ætla sér að hlæja þá gengur það miklu betur og það hefur sýnt sig að um leið og þú ferð að hlæja þá verða alls konar góð viðbrögð í líkamanum.“



Ásta segir alla velkomna í Laugardalinn á morgun og að undanfarin ár hafi margir mætt með börnin sín og jafnvel hunda, sem sé virkilega skemmtilegt. „Ég hvet fólk eindregið til að koma og kynna sér þetta,“ segir hún. „Það gæti komið því verulega á óvart hversu mikla vellíðan hláturinn vekur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.