Skoðun

Ég er SKO EKKI femínisti!

Helga Margrét Friðriksdóttir skrifar
Eftir miklar vangaveltur síðastliðna daga sit ég eftir sem eitt spurningamerki. Það er bara svo margt sem ég skil ekki. Enginn vill láta brjóta á sér og allir virðast telja það mikilvægt að sitja vörð um eigin réttindi. En þegar það kemur að því að sýna vilja í verki er allt stopp. Líkt og fólk trúi því og treysti að samfélagið sem það tilheyrir muni sjá til þess að þetta verði allt saman fært upp í hendurnar á því. Ó hvað það væri góður heimur að búa í. En gott fólk þetta virkar ekki svona. Ætli lífið sé bara ekki aðeins flóknara en svo, við þurfum að berjast fyrir réttindum okkar!

Ég bý í samfélagi þar sem einstaklingar leyfa sér að gera lítið úr jafnréttisbaráttu og það sem verra er, oftar en einu sinni hef ég sest niður og spjallað við einstaklinga sem finnst hallærislegt að vera femínisti, hitt ungar stelpur sem tilkynna mér það stoltar að þær séu SKO EKKI femínistar.

Nú velti ég því fyrir mér hvað manneskja sé að meina þegar hún segist ekki vera femínisti! Er hún á móti jafnrétti? Er hægt að vera á móti jafnrétti? Eða spilar þarna ótti inn í? Að mínu mati er líklegra að þessi einstaklingur óttist það mótlæti sem samfélagið hefur sýnt þeim einstaklingum sem hafa gefið sig út fyrir að vera femínistar. Á sama tíma og karlmenn stíga fram sem femínistar eru dáðir og settir á einhvern dýrlingastall. Aldrei hef ég lesið blaðagrein þar sem konu er hrósað fyrir það að standa á réttindum sínum, nei, hún er kölluð frekja eða eitthvað þeim mun verra.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við hrósum fólki fyrir að stuðla að jafnrétti. Er rétt að hrósa fyrir eitthvað sem ætti að teljast sjálfsagður hlutur? Eða erum við að vissu leyti að ýta undir ójafnréttið með því að benda sérstaklega á það?

Stjórnvöld marka sér stefnu í jafnréttismálum en virðast svo eiga í stökustu erfiðleikum við að standa við hana. Svo virðist vera að það sé samþykkt hegðun innan samfélagsins að troða inn svona dúllum hér og þar, þar sem settar eru inn jafnréttisstefnur eða mörkuð stefna í mannréttindamálum sem er einungis sett fram til skrauts. En ekki til að sýna í verki. Væri ekki dásamlegt að búa í heimi þar sem við þyrftum ekki að hrósa, berjast fyrir né setja fram sjálfsagða hluti sem allir vita að enginn ætlar að fara eftir þegar á hólminn er komið.






Skoðun

Sjá meira


×