Skoðun

Staðreyndir um grunnheilbrigðisþjónustu

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir skrifar
Ég fór á fund í morgun, sem er ekki í frásögur færandi; ég fer á nokkra í hverri viku. Flestir tengjast þeir starfinu mínu við skólahjúkrun í Langholtsskóla, þar sem tilgangurinn er að mæta þörfum barna og foreldra fyrir þjónustu. Stór hluti starfsins á eðli málsins samkvæmt að felast í forvörnum, fræðslu, bólusetningum, skoðunum og mælingum.

En eins og margsinnis hefur komið fram í opinberri umræðu er víða pottur brotinn í þjónustu við börn og unglinga sem af einhverjum ástæðum eiga undir högg að sækja eða eru „Börnin á brúninni“, líkt og Erla Björg Gunnarsdóttir blaðamaður nefndi tímabæra umfjöllun sína, sem birtist í Fréttablaðinu í liðinni viku. Afleiðingarnar eru meðal annars þær að í stað þess að starfið mitt snúist um að koma í veg fyrir vanlíðan og vanda barna og ungmenna fer stór hluti starfsins í að mæta brýnum þörfum þessara barna eða vísa þeim í viðeigandi úrræði, þar sem iðulega eru langir biðlistar. Starfið felst í að slökkva elda í stað þess að koma í veg fyrir að þeir kvikni.

Síðastliðið haust fór ég við fjórða mann á fund hjá háttvirtum heilbrigðisráðherra, sem þá nýtekinn við embætti lofaði bót og betrun í grunnþjónustu við þegna okkar ágæta samfélags. Þar á meðal var nefnd efling heilsugæslunnar, efling heimaþjónustu, efling vaktþjónustu og efling nærþjónustu í hvívetna með áherslu á að nýta þekkingu og reynslu hins gríðarlega mannauðs sem til dæmis starfar innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins – HH.

Til að ítreka mikilvægi þessa enn frekar hvað varðar börn og ungmenni í samfélagi okkar, kom fram í nýlegri tilkynningu frá félags- og húsnæðismálaráðherra að það væri aðkallandi að ráðast í „…gagngerar kerfisbreytingar til að tryggja börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir, fíkniefnavanda eða fjölþættan vanda viðeigandi úrræði,“ – sem ráðherra segir þeim ekki hafa staðið til boða vegna „…slælegrar stjórnunar hins opinbera og skorts á heildarsýn.“ (Ungmennum í vanda veitt aðstoð; mbl.is, 17.02.2014.)

Ástandið óviðunandi

Ég fagna þessari tilkynningu mjög, enda eru þetta göfug og góð markmið, sem ég vona innilega að náist því sannarlega er núverandi ástand óviðunandi. Við skulum þó hafa í huga að víða innan grunnheilbrigðisþjónustunnar er meðvitund um þörf þessara barna og fjölskyldna þeirra fyrir þjónustu, og leitað allra leiða til að mæta henni. Má í því sambandi nefna fjölskylduteymi Langholts- og Vogahverfis, sem er þjónustuúrræði fyrir börn og fjölskyldur í vanda sem í eiga sæti sérfræðingar frá Heilsugæslunni í Glæsibæ, frá barna- og unglingageðdeild Landspítalans og frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Fagaðilar sem starfa í nær- og grunnþjónustu við börn og ungmenni eru nefnilega mjög meðvitaðir um þörf þeirra fyrir þjónustu, hve vandinn hefur vaxið og um leið, hve leiðtogar velferðarkerfisins virðast bregðast seint og illa við.

Hér í upphafi minntist ég á fund sem ég sat í morgun. Þar kom fram að til að ríkisstofnunin Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins geti starfað samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs þurfi að draga saman um 150 milljónir. Og hvað þýðir það? Því er auðsvarað. Það á að draga úr grunnþjónustu. Draga úr vaktþjónustu lækna, draga úr viðveru og þjónustu skólahjúkrunarfræðinga, fækka komum í mæðravernd og draga úr skimunum í ung- og smábarnavernd. Og það á sama tíma og fyrirburamóttaka Heilsugæslunnar er lögð niður og flutt út á heilsugæslustöðvarnar, sem stjórnendur HH hafa haldið fram í fúlustu alvöru að muni nákvæmlega engin áhrif hafa á gæði þjónustunnar.

Það er sannarlega skortur á heildarsýn innan velferðarkerfisins, sem er undir slælegri stjórn líkt og félags- og húsnæðismálaráðherra benti á. Ef áfram heldur sem horfir molnar enn frekar undan stoðum HH, sem á að gegna lykilhlutverki í grunnheilbrigðisþjónustu. Í mínum huga er það ekki aðeins fjárskortur sem veldur því, heldur ekki síður skortur á hlustun og raunverulegum vilja til breytinga innan stjórnsýslu HH og umhyggjuleysi gagnvart því framúrskarandi fagfólki sem starfar á heilsugæslustöðvum borgarinnar.

Nú er mál að linni. Eflum úrræðin, þekkinguna og reynsluna sem er til staðar. Bregðumst við þörfum skjólstæðinga okkar fyrir þjónustu, komum í veg fyrir að eldarnir kvikni og hlustum á fólkið á vettvangi, sem verður á hverjum degi vart við alvarlegar afleiðingar þeirra samfélagslegu breytinga sem hér hafa átt sér stað síðastliðin ár.



Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×