Skoðun

Lykillinn að hamingjunni

Martha Árnadóttir skrifar
Grundvallarspurningin í siðfræði Aristótelesar frá því á fjórðu öld fyrir Krist er spurningin um hvernig unnt er að lifa góðu og farsælu lífi eða að vera hamingjusöm manneskja – milljón dollara spurningin enn þann dag í dag – ekki satt?

Hamingjan er tilgangurinn

Að mati Aristótelesar er tilgangur lífsins að öðlast farsæld sem getur í nútímanum útlagst sem hamingja. Hann var einnig sannfærður um að til að uppfylla tilganginn og öðlast hamingjuna þyrfti manneskja að koma sér upp góðu safni dygða. Að vera hamingjusöm manneskja er því fólgið í því að vera dygðug manneskja, að mati Aristótelesar.

Dygð getur verið góð venja

Hvað í ósköpunum á Aristóteles við með dygð og hvað þýðir að vera dygðug manneskja – hvernig getum við nýtt okkur þessa ævafornu nálgun Aristótelesar til að öðlast lífshamingju í nútímanum? 

Þegar Aristóteles var spurður að þessu svaraði hann því til að dygðir væru einfaldlega athafnir dygðugrar manneskju, dygðir eru það sem dygðug manneskja gerir, venjur hennar og viðbrögð. Til að öðlast hamingju þyrfti viðkomandi því að temja sér hætti dygðugrar manneskju og taka upp háttalag hennar og venjur.

Einföldum málið

Til að einfalda málið fyrir okkur nútímamanneskjum og um leið nýta okkur þessa fornu speki má líta svo á að dygðir séu einfaldlega góðar venjur sem við tileinkum okkur og birtast í fari okkar alla daga. Venjur sem þegar eru orðnar hluti af okkur og gefa lífi okkar merkingu og tilgang.

Gott venjusafn

Þar sem Aristóteles segir að dygðir séu forsenda hamingjunnar má halda því fram að góðar venjur séu forsenda hamingjunnar sem mörgum er svo vandfundin. Gott venjusafn (portfolio) er því meira virði en flest önnur eignasöfn sem skína þó töluvert skærar!

Eitt ráð í forgjöf: Það tekur 21 dag að festa í sessi góða venju!

(Dygð er ritháttur tengdur dygðasiðfræði Aristótelesar)




Skoðun

Sjá meira


×