Skoðun

Dagur íslenska táknmálsins

Rannveig Sverrisdóttir skrifar
Í dag, 11. febrúar 2014, er degi íslenska táknmálsins fagnað í annað sinn. Í kjölfar laga frá árinu 2011 um íslenska tungu og íslenskt táknmál kom mennta- og menningarmálaráðherra á fót Málnefnd um íslenskt táknmál og lagði nefndin til að íslenska táknmálið fengið sinn eigin dag til samræmis við dag íslenskrar tungu. Stofndagur Félags heyrnarlausra, 11. febrúar, varð fyrir valinu.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál um 2-300 Íslendinga en töluvert fleiri tala það sem annað mál, annaðhvort í vinnu eða heima fyrir. Tengsl menningar og máls eru óumdeild og því eiga þeir sem tala íslenskt táknmál sem fyrsta mál sinn sérstaka menningarheim sem mótast hefur af sögu táknmálsins og málsamfélagsins í áranna rás. Þeir sem búa á Íslandi og tala íslenskt táknmál, eiga þó líka annan menningarheim, menningarheim íslenskunnar og er rituð íslenska þeirra annað mál. Í dag, á degi íslenska táknmálsins, standa Málnefnd um íslenskt táknmál og Rannsóknarstofa í táknmálsfræðum fyrir málþingi um mót þessara tveggja heima og um ávinning samfélagsins af táknmáli og menningarheimi þess.

Mismunandi milli landa

Sú ranghugmynd að táknmál sé alþjóðlegt er sterk í hugum manna og virðist erfitt að leiðrétta þá hugmynd. Staðreyndin er hins vegar sú að táknmál eru mismunandi á milli landa og þjóða og eru fjölbreytt eins og raddmálin. Fyrir rúmum 50 árum færði bandaríski málfræðingurinn William Stokoe sönnur á það að ASL, bandaríska táknmálið, væri fullkomið mál sem lyti í grunninn sömu lögmálum og önnur tungumál, þ.e. raddmál.

Áður en Stokoe birti sínar rannsóknir var almennt talið að táknmál væru ekki tungumál heldur einungis látbragð. Mörg ár og jafnvel áratugi tók að riðla þeirri hugmynd og sífellt þurfti að færa rök fyrir því að táknmál væru mál. Frá sjónarhóli málvísinda eru öll tungumál jöfn og enginn vafi leikur á því að táknmálsrannsóknir hafa fært málvísindum ný sannindi um virkni og þróun tungumála. Í dag efast því enginn um að táknmál séu mál. Það reynist hins vegar erfitt að breyta hugmyndinni um alþjóðleika táknmála sem segir okkur að hugmyndir manna um mál töluð með röddu og mál töluð með höndum eru ólíkar.

Táknmál heimsins skipta a.m.k. tugum og líklega hundruðum, allt eftir því hvernig við skilgreinum mál. Táknmál í ólíkum löndum eru lík að formgerð en þau eru misskyld. Innan hvers táknmáls má líka sjá breytileika, eins og mállýskur, unglingamál og barnamál. Á sama hátt og menning mótar mál þeirra sem tala raddmál þá mótar menningin táknmál á hverjum stað. Íslenskt táknmál er því sérstakt, ekkert mál er alveg eins og það.




Skoðun

Sjá meira


×