Skoðun

Gleymdu börnin

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir skrifar
Fæðing barns er kraftaverk. Foreldrarnir fagna, afinn og amman fagna, fjölskyldan fagnar. Allir í fjölskyldunni trúa því að með stuðningi samfélagsins verði henni gert kleift að koma barninu til manns. Barnið fái tækifæri til að vaxa og dafna, njóta hæfileika sinna, hamingju og tækifæra til að taka virkan þátt í samfélaginu.

Sem betur fer eiga flest börn hamingjuríka æsku og taka jöfnum, nokkuð átakalausum skrefum út þroska sinn allt til fullorðinsára. Foreldrarnir reyna að styðja börnin sín eftir bestu getu, liggja ekki á lofi þegar vel gengur og leita óhræddir eftir stuðningi hjá vinum og vandamönnum þegar á móti blæs.

Því miður eru ekki öll börn jafnheppin. Sum börn fæðast fötluð eða greinast með ýmiss konar skerðingar í upphafi ævinnar. Fæstar þessar skerðingar eru lengur feimnismál í íslensku samfélagi. Hækkandi menntunarstig hefur skilað sér í auknum skilningi og betri þjónustu við einstaklinga með ólíkar fatlanir og aðrar skerðingar.

Því er þó ekki þannig farið með allar gerðir skerðinga. Sem dæmi má nefna geðröskun og geðfötlun meðal barna og ungmenna. Foreldrar barna og ungmenna með geðraskanir tala sjaldnast hátt um veikindi barna sinna jafnvel þó veikindin hvíli þungt á þeim og fjölskyldum þeirra. „Stelpan/strákurinn minn er alveg að fara með mig í þessari maníu sinni eða þunglyndi sínu,“ heyrist sjaldan á kaffistofunni þó vandinn leynist víða inni á heimilum.

Þjónustu ábótavant

Með sama hætti og skilningsskortur er ríkjandi er þjónustu við hóp barna með geðraskanir ábótavant. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur biðlisti eftir þjónustu við börn undir 18 ára aldri á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) sjaldan verið lengri. Ekki tekur betra við þegar ungmenni hafa náð 18 ára aldri því ekkert úrræði er sérstaklega ætlað fólki með geðraskanir á aldrinum 18 til 25 ára í íslensku samfélagi.

Hópur ungs fólks með geðraskanir og vímuefnavanda fer vaxandi. Hans bíða aðeins almennar sjúkrameðferðarstofnanir eins og Vogur. Því miður bendir ýmislegt til þess að slíkar stofnanir búi ekki yfir nægilegri fagþekkingu til að taka við geðsjúkum og alls ekki ungmennum. Jafnvel eru dæmi um að ungu fólki sé vísað úr meðferð við fíkniefnavanda á grundvelli dæmigerðrar hegðunar af völdum geðröskunar. Ef foreldrar ungmennanna eru ekki tilbúnir að taka við þeim bíður þeirra aðeins – gatan.

Við þurfum að skoða hug okkar og svara lykilspurningu. Ber samfélagið ekki ábyrgð á að koma „öllum“ börnum til manns? Íslenskt velferðarsamfélag verður að horfast í augu við gleymdu börnin sín. Okkur ber skylda til að tryggja þeim og aðstandendum þeirra nægilegan stuðning til að þau nái að lifa hamingjuríku lífi og taka virkan þátt í samfélaginu.

Auka verður fræðslu um geðsjúkdóma til að vinna gegn fordómum, bæta þjónustu við yngri börn og síðast en ekki síst setja á stofn uppbyggilegt, félagslegt úrræði fyrir ungmenni á aldrinum 18 til 25 ára með tvíþættan geðrænan og vímuefnaneysluvanda.

Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að bregðast hratt við til að koma í veg fyrir mikla óhamingju og framtíðar-, samfélagslegan vanda.




Skoðun

Sjá meira


×