Skoðun

Allir snjallir!

Anna Margrét Sigurðardóttir skrifar
Á dögunum var Foreldradagur Heimilis og skóla haldinn í fjórða sinn og að þessu sinni var yfirskriftin „Allir snjallir“. Yfirskrift Foreldradagsins vísar í snjalltækjanotkun í samfélaginu sem vissulega er orðin hluti af menningu okkar og nær til allra aldurshópa.

Litlu snillingarnir

Þau börn sem eru í fyrstu bekkjum grunnskólans hafa allt sitt líf alist upp við tilvist snjalltækja. Ekki er óalgengt að heyra foreldra eða ömmur og afa dást að því hve barnið á öðru ári sé leikið á spjaldtölvu heimilisins og órana um hvaða snillingur framtíðar séu þar á ferð. En öllum nýjungum og tækni þurfa líka að fylgja reglur og viðmið. Samfélagið þarf að komast að niðurstöðu um skynsamlega notkun því knýjandi þörf er á sameiginlegum viðmiðum um snjalltæki í skólum landsins svo koma megi á sátt og vinnufriði. Rannsóknir segja okkur að þar sem foreldrar og börn eru í góðum tengslum eru meiri líkur á að börn fari að settum reglum og virði viðmið samfélagsins. Fyrst og síðast er það á ábyrgð foreldra að takast á við hegðun barna sinna. Foreldrasáttmáli Heimilis og skóla er öflugt tæki fyrir foreldra til að sameinast um grundvallarviðmið og fara saman að reglum samfélagsins.

Samstaða er mikilvæg

Skólasamfélagið þarf í heild sinni að tala saman og móta stefnu sem allir geta farið eftir. Í Brekkuskóla á Akureyri var haldið málþing sl. vor þar sem allir aðilar skólasamfélagsins voru kallaðir til og reynt var að komast að sameiginlegri niðurstöðu um notkun snjalltækja. Málþing sem þetta er til fyrirmyndar fyrir aðra skóla landsins. Í Sæmundarskóla gilda skýrar reglur en nemendur mega nota snjalltæki í tíma með leyfi kennara og nota má tæki í frímínútum en ekki taka myndir. Við brot á reglum er tækið tekið af nemanda og afhent í lok skóladags. Snjalltæki bjóða upp á ótrúlega möguleika í skólastarfi og margir skólar eru vel tækjum búnir. Framþróunin verður ekki stöðvuð heldur ber okkur að nýta snjalltæknina skynsamlega í leik og starfi.

Eignarréttur og vinnufriður

Eins og að framan er getið hafa margir skólar sett sér reglur um snjalltækjanotkun en árekstrar eru tíðir því oft og tíðum er dansað eftir hárfínni línu og ekki alltaf ljóst hvort viðbrögð séu rétt eða röng. En sitt sýnist hverjum og sumir hafa þá skoðun að gera megi snjalltæki upptæk af nemendum ef þau valda truflun í skóla eða eru notuð á meiðandi hátt. En öllum ber að virða lög og friðhelgi einkalífs og eignaréttur er í gildi bæði fyrir börn og fullorðna. Börn eru varin af íslenskum lögum og ekki má brjóta á réttindum barna þegar fullorðnum einstaklingum finnst það henta. Vera má að stjórnvöld þurfi að skoða hvort tilefni sé til að breyta lögum í þá veru sem er t.d. í Svíþjóð en þar eru heimildir til upptöku tækja af þessu tagi rýmri en hér á landi.

Samráð um viðmið

Um þessar mundir vinna Heimili og skóli og SAFT að því að kalla saman ýmsa hagsmunaaðila í samráðshóp sem mun taka saman viðmið um notkun snjalltækja í skólum. Þar munu eiga sæti fulltrúar foreldra, nemenda, kennara og annarra sem tengjast skólasamfélaginu. Heimili og skóli og SAFT stefna að því að kynna þessi viðmið á alþjóðlega netöryggisdeginum, 10. febrúar á næsta ári. Samfélagið kallar eftir skýrum reglum og við erum að bregðast við því ákalli. Upptaka af Foreldradeginum og ráðstefnunni Allir snjallir er aðgengileg á heimasíðu Heimilis og skóla, heimiliogskoli.is og á saft.is.




Skoðun

Sjá meira


×