Neytendastofu barst kvörtun frá Farfuglar ses í september 2013 en Farfuglar reka farfuglaheimilið og barinn Loft Bar í Bankastræti. Bent var á að fyrirtækið ætti einkaleyfi á vörumerkjunum Loft og Loftbarinn. Í daglegu tali gangi farfuglaheimilið hins vegar undir nafninu Loftið.
Þegar frést hafi af fyrirhugaðri opnun Loftsins í Austurstræti hafi verið haft samband við eiganda staðarins og hann varaður við notkun nafnsins. Sá hafi gefið lítið fyrir andmælin og viljað meina að „Loftið“ væri annað en „Loft“.

Í úrskurði Neytendastofu segir að ljóst sé að aðilar starfi á sama markaðssvæði enda báðir áfengisveitingastaðir auk þes að aðeins 300 metrar eru á milli staðanna. Þá sé mikil hljóðlíking með heitum staðanna þótt ákveðinn greinir skilji þar að. Greinirinn geti ekki verið úrslitaákvæði til aðgreiningar heitanna.
Telur Neytendastofa að notkun Boltabarsins á heitinu Loft eða Loftið, þar með talið á léninu loftidbar.is, sé til þess fallin að valda ruglingshættu.
Loftið í Austurstræti er nokkuð vinsæll staður í næturlífi borgarbúa. Þangað sækir allajafna fólk yfir þrítugu en krafist er snyrtilegs klæðaburðar af gestum. Þá hefur staðurinn komist í fréttirnar til dæmis vegna ósáttra gesta sem þurftu að yfirgefa borð sitt vegna frægari gestaog í ótengt skipti þar sem gestur var með húðflúr á handleggjum.
Danfríður Árnadóttir, eigandi Loftsins, ræddi við Reykjavík síðdegis á sínum tíma í tilefni af uppákomunni með Gordon Ramsay. Hægt er að hlusta á upptökuna í spilaranum hér að neðan.