Viðskipti innlent

Tekjur Actavis plc jukust um helming milli ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Actavis sérhæfir sig í samheitalyfjum
Actavis sérhæfir sig í samheitalyfjum VISIR/ÓLI
Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, birti afkomu sína fyrir árið 2013 í Kauphöllinni í New York í morgun.

Actavis plc er alþjóðlegt alhliða lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og dreifingu samheitalyfja, frumlyfja og líftæknilyfja.

Tekjur félagsins jukust um 59% á milli ára og námu 2,78 milljörðum bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 1,75 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi 2012.



Tekjur Actavis plc jukust um 47% á milli ára, úr 5,9 milljörðum dala árið 2012 í 8,7 milljarða dala í fyrra.

Afkoma Actavis plc fyrir fjórða ársfjórðung 2013 og árið í heild tekur mið af kaupum á lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott frá 1. október 2013. Afkoma fjórða ársfjórðungs 2012 og ársins 2012 í heild gerir ráð fyrir kaupum Watson Pharmaceuticals á Actavis frá 1. nóvember 2012.

Tekjur sérlyfjahluta Actavis hækkuðu um 133% í 1,1 milljarð dala á árinu 2013 aðallega vegna áhrifa kaupa Actavis á Warner Chilcott á fjórða ársfjórðungi 2013. Fjárfesting í rannsóknum og þróun á sérlyfjasviði nam 78,9 milljónum dala.

Hjá Actavis á Íslandi starfa tæplega 800 manns og hefur verksmiðjan á Íslandi framleiðslugetu upp á 1,5 milljarða taflna og hylkja á hverju ári og er um 95% framleiðslunnar flutt út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×