Innlent

Útspil ráðherra misbýður kennurum

Svavar Hávarðsson skrifar
Ekkert þokaðist í viðræðum ríkisins og kennara í gær. Ekki verður fundað aftur fyrr en á mánudag.
Ekkert þokaðist í viðræðum ríkisins og kennara í gær. Ekki verður fundað aftur fyrr en á mánudag. Fréttablaðið/gva
„Þetta nær engri átt og ráðherra misbýður kennurum með þessu tali,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara (FF). Hún segir það óboðlegt að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra beri fyrir sig langtíma kerfisbreytingar innan framhaldsskólanna sem framlag inn í erfiða yfirstandandi kjaradeilu.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur talað fyrir kerfis­breytingum í framhaldsskólunum, þar á meðal styttingu náms úr fjórum árum í þrjú. Slíkt geti skapað svigrúm fyrir launahækkanir kennara umfram þau 2,8% sem samið var um á almennum launamarkaði og stendur kennurum til boða í augnablikinu. ­Illugi sér breytinguna þó ekki fyrir sér sem hagræðingaraðgerð heldur aðgerð til að bæta skólana, eins og hann hefur sagt í fjölmiðlum að undanförnu spurður um kjaradeilu kennara sem komin er í ­harðan hnút.

Aðalheiður Steingrímsdóttir
„Við vitum í fyrsta lagi ­ekkert hvað ráðherra er að tala um. Hann hefur ekki kynnt það fyrir okkur hvað hann er að hugsa. Á hann við að skera ­einfaldlega eitt ár innan úr framhaldsskólanum. Ef það er hugmyndin þá er hann kominn langt aftur í tímann í umræðunni um námstímann í framhaldsskólunum,“ segir Aðalheiður. Hún útskýrir að framhaldsskólalögin frá 2008 gefi svigrúm fyrir nemendur, bæði geta þeir farið fyrr á milli skólastiga, þá úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, og jafnframt geti þeir flýtt námi, eða tekið sér lengri tíma eftir aðstæðum. 

„Þetta er kjarninn í lögunum og byggt á samtali menntamálayfirvalda og kennara á undanförnum árum. Illugi staðsetur sig aftur á móti, sýnist mér, eins og umræðan var fyrir mörgum árum síðan. Mér finnst þetta dapur­legt og skilar engu. Það þarf að ræða niðurskurðinn í skólunum á undan­förnum árum með skertu námsframboði og það þarf alvarlega að ræða skert kjör kennara. Námstíminn er ekkert aðalatriði og með ólíkindum að þetta sé hans framlag inn í erfiðar samningaviðræður. Halda menn að þetta sé eitthvað sem kennarar geta samið um; að gera kjarasamninga um það að skera niður nám nemenda eða að spara í kerfinu sem er þegar fjársvelt? Það er að minnsta kosti búið að skerða framlög til framhaldsskólanna um 12 milljarða frá hruni.“ 

Aðalheiður bætir við að ráðherra eigi tvo fulltrúa í samninganefnd ríkisins og hann geti því ekki fríað sig allri ábyrgð á samningagerð við kennara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×