Skoðun

Engin vinna fyrir 8. bekk

Marta Guðjónsdóttir skrifar
Sumarið er komið og brátt styttist í síðasta dag grunnskólastarfs. Líkt og fyrri sumur munu fjórtán ára unglingar á nær öllu höfuðborgarsvæðinu hefja sinn starfsferil þegar þeir mæta til vinnu hjá vinnuskóla síns sveitarfélags. Í einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, þurfa þessir ungu krakkar hins vegar að sætta sig við að sitja heima, nú eða a.m.k. gera eitthvað annað en að vinna. Ástæða þess er sú að Samfylkingin og Besti flokkurinn/Björt framtíð ákváðu árið árið 2011 að veita ekki 8. bekkingum grunnskólans sumarvinnu. Afstaða þessara flokka hefur lítið breyst því í marsmánuði sl. felldu þeir svo tillögu okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn um að veita þessum aldurshópi sumarstörf á ný hjá Vinnuskólanum.

Í bókun meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar í borgarstjórn Reykjavíkur er því borið við að ekki séu til peningar til þess að veita þessum krökkum vinnu. Þá finnst borgarstjórnarmeirihlutanum að atvinnusköpun fyrir 17 ára unglinga eigi að njóta forgangs. Þessi rök meirihlutans halda þó vart vatni enda fylgir því lítill kostnaður að veita bæði 14 og 17 ára unglingum sumarvinnu. Þá hefur þessi sami meirihluti hiklaust hent umtalsvert hærri fjárhæðum í alls konar gæluverkefni eins og fuglahús og fána á Hofsvallagötu og breytingar á Borgartúninu.

Það er synd að Samfylkingin og Besti flokkurinn/Björt framtíð skuli ekki sjá sér fært að veita unglingum borgarinnar, þeim einstaklingum sem munu móta framtíð Reykjavíkur, sömu tækifæri og jafnaldrar þeirra í nágrannasveitarfélögum njóta.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×