Innlent

Vekja vitund á stöðu unglingsstúlkna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty/Pjetur
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mun ganga með vatnsfötu á höfðinu í dag. Það gerir hún til stuðnings kynningarvikunni Sterkar stelpur – sterk samfélög, sem frjáls félagasamtök og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Um er að ræða vitundarvakningu á stöðu unglingsstúlkna í fátækustu löndum heims og mun kynningarvikan standa yfir alla næstu viku, eða 6. – 11. október. Vikunni verður formlega ýtt úr vör á Austurvelli í dag með vatnsfötuáskorun klukkan þrjú.

Ganga þarf með tíu lítra fötu að minnsta kosti tíu metra til stuðnings unglingsstúlkum í þróunarríkjunum. Í tilkynningu frá UN Women á Íslandi segir að Vigdís muni ganga fyrsta spölinn með vatnsfötu á höfðinu að hætti afrískra stúlkna.

„Hún skorar á þrjá aðra að gera slíkt hið sama innan sólarhrings og birta myndbönd eða ljósmynd af því til staðfestingar á samfélagsmiðlum,“ segir í tilkynningunni.

Stúlkur lykilatriði

Þá segir að rannsóknir síðustu ára sýni að unglingsstúlkan sé einn höfuðlykill þess að uppræta fátækt í heiminum. Þrátt fyrir það sé staða unglingsstúlkna víða skelfileg. „Sláandi misrétti, nauðungarhjónabönd, ofbeldi og valdleysi. Þær verða fyrir mannréttindabrotum og mismunun vegna kyns og aldurs.“

Átakið felur þar að auki í sér hvatningu til allra stúlkna um að standa á rétti sínum og láta rödd sína heyrast hátt og snjallt.

„Á hverjum degi upplifa milljónir stúlkna að raddir þeirra séu kæfðar, lífi þeirra ógnað, réttindi þeirra fótum troðin, frelsi þeirra takmarkað - einungis vegna þess að þær eru stelpur. Með kynningarátakinu Sterkar stelpur - sterk samfélög viljum við að íslenska þjóðin sendi stúlkum sem búa við brot á mannréttindum skilaboð um að þær standi ekki einar: að saman getum við breytt heiminum og gert hann betri. Komum heiminum í lag!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×