Innlent

Uppgjörinu er ekki lokið

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Embætti Sérstaks saksóknara er komið fram úr fjárheimildum í fyrsta sinn. Sérstakur saksóknari segir að enn sé rannsókn nokkuð margra mála ólokið.
Embætti Sérstaks saksóknara er komið fram úr fjárheimildum í fyrsta sinn. Sérstakur saksóknari segir að enn sé rannsókn nokkuð margra mála ólokið. Vísir/Vilhelm
„Það ber að taka alvarlega allt sem snýr að fjárheimildum og fjárlögum. Embætti Sérstaks saksóknara hefur ekki áður farið fram úr fjárheimildum,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Samkvæmt endurskoðuðum útreikningum var embættið komið 120 milljónum króna fram úr heimildum á fyrrihluta ársins.

Ólafur Þór segir að embættið hafi átt 140 milljóna króna afgang frá síðasta ári og að minnsta kosti hluti þeirrar fjárhæðar sé inni í útreikningum.

Hann segir ljóst að embættið hafi farið fram úr heimildum og ein af skýringunum sé sú að rannsókn nokkurs fjölda mála sem tengjast efnahagshruninu sé enn ólokið.

Ólafur segir að embættinu hafi verði settur ákveðinn fjárhagsrammi til fjögurra ára á minnisblaði árið 2010. Miðað við þær forsendur sem þá var lagt upp með hafi embættið ekki farið fram úr þeim áætlunum.

Ólafur Þór Hauksson
Ólafur segir að á þessu ári eigi að fara fram fjárhagslegt uppgjör embættisins. Því eins og komi fram í athugasemdum með fjárlögum þessa árs sé stefnt að því að innanríkisráðuneytið vinni með embætti Sérstaks saksóknara að fjárhagslegu uppgjöri embættisins, með það að markmiði að ljúka þeim rannsóknum og verkefnum sem Sérstakur saksóknari hefur með höndum.

„Þessu uppgjöri er hins vegar ekki lokið og því liggur ekki ljóst fyrir hver endanleg niðurstaða verður,“ segir Ólafur Þór en bætir við að fyrirsjáanlegt sé að útgjöld á síðari helmingi ársins verði eitthvað lægri en á fyrri hluta þess.

Það stefnir í að Sjúkratryggingar Íslands fari þremur milljörðum króna fram úr fjárheimildum á þessu ári.

STeingrímur ARi ARason
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, hefur bent á ábyrgð stjórnvalda á framúrkeyrslu stofnunarinnar. Stofnunin hafi í byrjun árs verið búin að gera þeim grein fyrir stöðunni.

Hann segir að stjórnvöld geti aðhafst tvennt í málefnum stofnunarinnar, annars vegar að auka fjárframlög til hennar og hins vegar að skerða réttindi borgaranna hvað varðar greiðslur.

„Þetta eru réttindi sem ákveðin eru af stjórnvöldum þannig að það er ríkisstjórnar og Alþingis að taka ákvörðun um hvort þau réttindi verða skert, það er ekki Sjúkratrygginga að taka slíka ákvörðun,“ segir Steingrímur Ari.

Steingrímur Ari segir nokkra þætti skýra framúrkeyrsluna. Ekki hafi verið gripið til aðgerða vegna síaukins lyfjakostnaðar svo sem vegna ofvirknilyfja. Stofnunin hafi ekki fengið næg fjárframlög til að mæta samningi sem gerður var við tannlækna um barnatannlækningar. Það sem skýri hins vegar framúrkeyrsluna að stærstum hluta sé samningur við sérfræðilækna sem gerður var um áramót. Hann kosti Sjúkratryggingar um milljarð króna á þessu ári án þess að stofnunin hafi fengið auknar tekjur á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×