Það getur verið erfitt að vera stór. Það er kostur inn á körfuboltavellinum en stór maður á litlum bíl getur verið snúið mál. Guðjón Guðmundsson hitti miðherja Grindavíkurliðsins, Sigurð Gunnar Þorsteinsson, og forvitnaðist um bílinn hans í kvöldfréttum Stöðvar tvö.
Sigurður Gunnar er stæðilegur piltur og einn besti körfuboltamaður landsins. Bílinn sem hann ekur dags daglega er ekki í samræmi við líkamsburði Sigurðar. Hæðin er kostur í körfubolta en í daglegu lífi getur það verið vesen að vera rétt rúmir tveir metrar.
„Bíllinn er svona í minna lagi og frekar stuttur. Það er óvenju ljúft að keyra þennan bíl en maður er svolítið samanpakkaður," sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson í viðtalinu við Guðjón Guðmundsson.
Úrslitakeppnin í körfubolta er hafinn og þar er Sigurður Gunnar bjartsýnn á gott gengi sinna manna. Grindavík heimsækir Þór í Þorlákshöfn á morgun og kemst í undanúrslitin með sigri.
Það er hægt að sjá allt innslagið hjá Gaupa og viðtals hans við Sigurð Gunnar með því að smella hér fyrir ofan.

