Skoðun

Já, sæll.is

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Í síðasta mánuði fjallaði Vísir um niðurstöður rannsóknar sem gerð var á vegum Oregon State-háskólans í Bandaríkjunum, en í þeim kom fram að prófílmyndir fólks á Facebook skipta miklu máli. Minna mark er tekið á þeim sem sýna of mikið hold á prófílmynd sinni en þeim sem nota púkalegar passamyndir. Ég held að við getum flest verið sammála um að þessar niðurstöður komi ekkert sérstaklega á óvart.

En lífið er ekki bara Facebook. Það eru fleiri leiðir til þess að mynda sér skoðanir á fólki. Fyrir mér skipta til dæmis frasar sem fólk notar miklu máli. Ekki að ég dæmi endilega fólk, heldur hjálpar það manni að staðsetja þá sem maður talar við í hinu mannlega litrófi.

Þegar maður horfir til baka koma margir skemmtilegir frasar upp í hugann. „Glætan“ var mjög sterkur hérna í gamla daga. Með vexti netsins fóru sífellt fleiri að skeyta .is aftan við allt. Frasinn „Já, sæll“ var auðvitað svo vinsæll að hann var prentaður á boli og húfur. Allir þessir frasar og fleiri til eiga það sameiginlegt að vera útrunnir. Því frasar eru eins og mjólkin. Þeir endast ekki lengi.

Frasanotkun á Facebook er líka mikilvæg. Umræðumerkin svokölluðu eru til dæmis orðin ansi hvimleið. Enn eru sumir sem setja lokahnykkinn á hnyttnum Facebook-færslum inn í eina og langa umræðumerkingu.

Að nota útrunninn frasa er ákveðin yfirlýsing. Maður þarf að vera duglegur að fylgjast með hvaða frasar eru í tísku. Frasarnir eru eins og fallegur vasaklútur á stílhreinum jakkafötum. Eins og ermahnappar á skyrtu. Að nota nýja og gilda frasa getur skipt sköpum í því að skapa sér ímynd og getur auðgað tungumálið og hjálpað til við tjáninguna. Getur skipt sköpum í því hvernig aðrir horfa á mann.

Ein regla sem allir mega temja sér þegar kemur að frösum: Ef frasinn er kominn á boli, þá er hann útrunninn.




Skoðun

Skoðun

Eygló Halldórsdóttir skrifar

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×