Innlent

Vilja svör um bankasýsluna áður en þingið fer heim

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Forstjóri Bankasýslu ríkisins segist hafa séð það fyrst í fjárlagafrumvarpinu að stofnunin fengi ekki krónu á næsta ári. Stofnunin sem var sett á laggirnar eftir hrun fer með fimmtán prósent af öllum eigum ríkissjóðs.

Tilgangur Bankasýslunnar var meðal annars að færa eignaumsýsluna frá hinu pólitíska valdi enda ljóst að vegna hrunsins myndi ríkið fá í fangið stórar eignir frá bönkunum.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segir í viðtali við Stöð 2 að það sé af og frá að verkefnum Bankasýslu ríkisins sé lokið. Það séu sambærilegar stofnanir í flestum Evrópulöndum, til að mynda Bretlandi, Hollandi og Grikklandi, þótt ríkið eigi hærra hlutfall í bönkunum á Íslandi. Eignir í umsýslu stofnunarinnar hafi skilað ríkissjóði þrjátíu milljörðum í arðgreiðslur á síðustu tveimur árum.

Það þarf að leggja fram frumvarp um að leggja niður Bankasýsluna og auk þess þarf að breyta lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins. Það bólar hinsvegar ekkert á slíku frumvarpi enda hafa stjórnarflokkarnir ólíka sýn á málin og ekki allir framsóknarmenn sannfærðir um að hlutverki Bankasýslunnar sé lokið.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem situr í efnahags og viðskiptanefnd segir að lítil svör sé að fá frá stjórnvöldum um hvernig verði farið með eignarhald í bönkunum eftir breytinguna. Efnahags og viðskiptanefnd hafi þó farið fram á svör áður en fjárlög lokast og þingið fer heim.

Steingrímur segir að ríkið hafi ekki selt þessa eignarhluti og bankasýslan hafi verið að stýra fjárhagslegri endurskipulagningu og sameiningu sparisjóðanna. Þá sé verið að undirbúa aðferðafræðina við mögulega sölu þeirra.

Hann segist telja þetta afar misráðið, sérstaklega ef það eigi að færa þetta með gamla laginu í fjármálaráðuneytið og ráðherra eigi einn og sjálfur án nokkurra valnefnda fari að skipa í bankaráð og svo framvegis. Þá séu þessi armslengdarsjónarmið, um að það eigi að halda pólitísku valdi og meðferð eignarhlutarins aðgreindu, þá séu þau sokkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×