Skoðun

„Friður í heiminum byrjar heima“

Sigrún Sigurðardóttir skrifar
Heimilisfriður – heimsfriður - 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi



Eftir að hafa rannsakað afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í áratug, sé ég að það skiptir ekki öllu máli hvers konar ofbeldi á sér stað, ofbeldi er alltaf ofbeldi; kynferðislegt, líkamlegt, andlegt eða einelti. Afleiðingarnar eru þær sömu; niðurbrot líkama, huga og sálar.  

Flestir sem tekið hafa þátt í mínum rannsóknum segja frá reynslu sinni af fleiri en einni tegund ofbeldis, eitt áfall, sem ofbeldi er, virðist „kalla á“ annað áfall. Ofbeldi í æsku eykur líkurnar á endurteknu ofbeldi síðar á lífsleiðinni, ef ekki er gripið inn í.  

Kynferðislegt ofbeldi í æsku brýtur niður sjálfsmyndina, barnið hættir að treysta, ef ofbeldið á sér stað heima á barnið ekki öruggt skjól, á jafnvel enga vini þar sem það dregur sig í hlé eða er vandamálabarnið. Þetta barn er ákjósanlegt fórnarlamb eineltis, auðvelt að „taka það fyrir“, það verður seinna berskjaldað fyrir annars konar ofbeldi. Niðurbrotið birtist í alls kyns flóknum heilsufarsvandamálum, oft óútskýrðum.  

Baráttan gegn ofbeldi verður að byrja með forvörnum strax í bernsku. Byssukaup lögreglunnar og verkfall lækna hefur verið á allra vörum, allir rísa upp. Hvað með forvarnir? Forvarnir gegn ofbeldi til þess að barn verði ekki að glæpamanni sem ógnar lögreglunni svo að hún þurfi að vopnast. Forvarnir gegn ofbeldi til þess að fólk þurfi ekki að leita ítrekað til lækna vegna afleiðinga ofbeldis. Hefjum baráttuna þar, rísum líka upp í „meðmælum“ með forvörnum.   

Mikilvægt er að efla menntun og þekkingu fagfólks sem í starfi sínu kemur að slíkum málum. Nú stendur yfir meistaranámskeið við Háskólann á Akureyri: Sálræn áföll, ofbeldi og áfallastreita með rúmlega 50 nemendum af öllu landinu, áhugi fagfólks er til staðar.  

Námskeiðið byggir á þverfaglegri og heildrænni sýn á sviði heilbrigðisvísinda, félagsvísinda, menntavísinda og laga. Fjallað er   um einkenni og afleiðingar sálrænna áfalla, ofbeldis og áfallastreitu fyrir líkama, huga, sál og félagslegt umhverfi. Einnig er fjallað um leiðir til úrvinnslu með þverfaglegri samvinnu, heilbrigðis- og menntastofnana, lagakerfisins og stjórnsýslunnar.

Margt jákvætt hefur því gerst og alltaf er von. Til þess að gera enn betur verðum við að byrja á okkur sjálfum, taka til í okkar eigin garði áður en við gagnrýnum illgresið í garði nágrannans. Við verðum að kenna börnum hvað sé rétt og rangt, styrkja þeirra sjálfsmynd svo að þau verði síður fyrir ofbeldi eða beiti síður ofbeldi og hafi traust til þess að SEGJA FRÁ.

 

Ég vitna í orð Jóns Gnarr: „Friður í heiminum byrjar heima og við eigum mjög fallegt orð yfir það á íslensku; heimilisfriður.“




Skoðun

Sjá meira


×