Viðskipti innlent

Afnám hafta getur tekist vel og illa

Heimir Már Pétursson skrifar
Seðlabankastjóri segir að þótt nú séu um margt kjöraðstæður til afnáms gjaldeyrishafta þurfi að ígrunda hvert skref í þeim efnum vandlega. Það gæti tekist bæði feikilega vel og illa að afnema höftin og hann ítrekar að samningar á vinnumarkaði komi til með að hafa áhrif á vaxtastigið í landinu.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sat ásamt öðrum embættismönnum Seðlabankans fyrir svörum fulltrúa í efnhags- og viðskiptanefndar Alþingis á opnum fundi í morgun.  Hann var meðal annars spurður út í afnám gjaldeyrishaftanna og sagði að nú hefði tekist að skapa 40 til 50 milljarða óskuldsettan gjaldeyrisforða. Það væri því rétt að ágætar aðstæður væru til að taka stærri skref til afnáms gjaldeyrishafta.

„En þá skiptir líka máli að þau skref séu séu vel ígrunduð. Það er ekki nóg að bara kringumstæðurnar séu góðar, heldur að það séu valin réttu skrefin. Vegna þess að við vitum það náttúrlega öll að þarna getur bæði tekist feikilega vel til og þarna getur tekist feikilega illa til,“ sagði Már.

Allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir áramót og læknadeilan og fleiri erfið mál eru óleyst. Seðlabankastjóri sagði nefndarmönnum að það skipti miklu máli hvernig til tækist í kjaramálum. Miðað við spár um framleiðniaukningu upp á 1 prósent væri kannski svigrúm til árlegra launahækkana upp á um 3,5 prósent ef halda ætti verðbólgumarkmiðum. Þar væru stýrivextir aðaltæki Seðlabankans og áhrifamikið.

„Þótt þeir hafi á jaðrinum ekki mjög mikil áhrif á fjárfestingastigið þá eru önnur áhrif. Það er alveg ljóst að vextirnir draga úr svigrúmi til launahækkana. Þeir eru líka ákveðin hótun sem var notuð í kringum síðustu kjarasamninga og virkaði vel. Og af hverju virkaði hún vel? Jú vegna þess að við höfumhækkað vexti eftir of miklar launahækkanir vorið 2011,“ sagði Már Guðmundsson á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×