Skoðun

Listir eru hreyfiafl

Tinna Guðmundsdóttir skrifar
Á Degi myndlistar opnaði í Skaftfelli samsýningin Soð þar sem ellefu lokaársnemar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands sýna ný forvitnileg verk unnin alfarið á Seyðisfirði. Þetta mun vera fimmtándi hópurinn sem ferðast Austur til að taka þátt í námskeiðinu Vinnustofan Seyðisfjörður undir stjórn Björns Roth og Kristjáns Steingríms. Sýningin er lokastigið í námskeiðinu og er iðulega ein best sótta sýning ársins í Skaftfelli enda einstætt tækifæri fyrir Austfirðinga til að koma saman og sjá hverju listamenn framtíðarinnar eru að vinna að. Fyrir þátttakendur er námskeiðið ógleymanleg lífreynsla og upplifun.

Fyrir Skaftfell er námskeiðið mjög mikilvæg tenging við grasrótina í íslensku listalífi. Ég var svo lánsöm að taka þátt í þessu námskeiði árið 2002 og fá að kynnast Seyðisfirði og Skaftfelli. Sú reynsla hafði afgerandi áhrif á mig og mitt líf. Nú 12 árum seinna þegar ég vinn með þessum nemendum að undirbúningi sýningarinnar kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér hverjir halda áfram að stunda listsköpun, hverjir fara í framhaldsnám og hverjir feta annan veg. Á sínum tíma tók ég þá ákvörðun að fara skynsömu leiðina, til að eiga í soðið, og mennta mig í einhverju hagnýttu sem tengist minni ástríðu, myndlist.

Starfsumhverfi þessa nema er gjörólíkt því sem ég kynntist við mína útskrift og að mestu leyti í jákvæðum skilningi. Undanfarin ár hafa stjórnvöld unnið mjög gott starf við úttekt og umbætur á stjórnsýslu umgjörðinni. Nýlega var unnin rannsóknarvinna þar sem tekin voru saman hagræn áhrif skapandi greina og niðurstaðan var athyglisverð. Í ljós kom að virðisaukaskattskyld velta þessa afkima var 189 milljarðar árið 2009 og ársverk um 9.400 talsins. Í kjölfarið var settur saman starfshópur sem vann að stöðuúttekt og setti fram tillögur um bætt starfsumhverfi sem eru löngu tímabærar. Auk þess lögðu íslensk stjórnvöld fram menningarstefnu, ný safnalög komu fram og það sem mestu máli skiptir í mínu fagi, ný myndlistarlög voru sett árið 2012 og til varð myndlistarsjóður.

Ísland er þar með komið með ágætis stuðningsnet fyrir listir, myndlist þar með talið, sem er hliðstætt kollegum okkar á Norðurlöndunum. Tilurð myndlistarsjóðs er alger umbylting fyrir þá sem starfa í myndlistargeiranum og fjölbreyttan hóp þeirra sem njóta myndlistar. Í fyrsta sinn er komin sjóður sem leggur áherslu á framleiðslu verkefna eingöngu tengd myndlist, en ekki líknar- og menningarmál í sama flokki eins og fyrirkomulagið er hjá mörgum samfélagssjóðum. Í fyrsta sinn er mögulegt að þróa verkefni út frá listrænu gildi þess og tryggt að verkefnið verði metið á þeim forsendum, en ekki til hvaða markhóps kynningarefnið nær. Í fyrsta sinn er hægt að gera raunhæfa kostnaðaráætlun og fá úthlutað þeirri fjárhæð sem sótt er um, en ekki tilfallandi upphæð sem er í engu samhengi við framsett gögn. Nú loksins er hægt að leita í ákveðinn farveg með innihaldsrík verkefni með listamönnum og fagaðilum úr

geiranum. Myndlistarsjóður er hvatning til þess að bretta upp ermarnar og framleiða verkefni sem stuðla að frumsköpun og framþróun í íslenskri myndlist.

Með þessa uppbyggingarstarfsemi síðustu ára að leiðarljósi er komin grundvöllur fyrir því að fara að fordæmi Evrópusambandsins og auka stuðning og fjárframlög til lista. Höfum trú á þessum úttektum og tölfræðinni, höfum trú á listamönnum og fagmönnum, höfum trú á listum sem hreyfiafli. Höldum áfram að byggja upp stuðningskerfi fyrir listir á Íslandi og þar með stöðugt starfsumhverfi fyrir þá sem hafa atvinnu af listum.

Greinin er birt í tilefni Dags Myndlistar


Tengdar fréttir

Myndlist og hugsun

Hvaða áhrif hefur listin á það hvernig við tökum ákvarðanir í okkar daglega lífi?

Skál fyrir myndlistinni

Í kaffi, bjór, djús eða kampavíni, eða bara Egils Kristal ef maður vill vera betri en hinir. Já, bræður og systur, í dag er dagur myndlistar. Dagur listformsins sem mótar sjónrænan veruleika okkar niður í minnstu smáatriði.

Að staldra við

Við Sæbrautina er hægt að sjá nokkuð einstakt listaverk eftir Sigurð Guðmundsson sem nefnist Fjöruverk.




Skoðun

Sjá meira


×