Viðskipti innlent

Kristbjörg Edda nýr framkvæmdastjóri Manna og músa

Samúel Karl Ólason skrifar
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir.
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir. Aðsend mynd
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Manna og Músa ehf. en hún tekur við því starfi af Jóni R. Kristjánssyni. Menn og mýs ehf. þróar og selur hugbúnaðarlausnir til stjórnunar á DNS-, DHCP- og IP-innviðum (DDI) fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki undir nafninu Men & Mice Suite.

Kristbjörg Edda hefur víðtæka stjórnunarreynslu. Hún hefur verið forstöðumaður markaðssviðs Símans síðastliðin tvö ár. Áður starfaði hún hjá Össuri í ellefu ár og gegndi þar ýmsum stjórnunarstörfum. Hún var meðal annars framkvæmdastjóri markaðssviðs fyrir Evrópu, Miðaustur¬lönd og Afríku, forstöðumaður vörustjórnunar og stefnumótunar fyrir stoðtæki og stuðningstæki, og framkvæmdastjóri Þróunar- og vörustjórnunar á Íslandi.

Þá hefur Kristbjörg Edda einnig sinnt ráðgjöf og kennslu á sviði vörustjórnunar og nýsköpunar. Á starfsferli sínum hefur hún búið í Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Kristbjörg Edda er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum í Árósum og Háskóla Íslands. Hún er einnig með BA-gráðu í hagfræði og mannfræði frá Háskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×