Viðskipti innlent

Umfangsmestu jarðstengskaup Landsnets

Samúel Karl Ólason skrifar
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets og fulltrúar NKT, Peter Marcusson, sölustjóri á Norðurlöndum, og Magnus Björklund, markaðsstjóri á Norðurlöndum, undirrita samning um kaup á jarðstrengjum.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets og fulltrúar NKT, Peter Marcusson, sölustjóri á Norðurlöndum, og Magnus Björklund, markaðsstjóri á Norðurlöndum, undirrita samning um kaup á jarðstrengjum. Mynd/Hreinn Magnússon/Landsnet
Landsnet hefur samið við sænska kapalframleiðandann NKT Cables AB um kaup á þremur jarðstrengjum fyrir 66 kílóvolta spennu, samanlagt um 45 km að lengd, vegna fyrirhugaðra verkefna á næsta ári. Samkomulagið, sem hljóðar upp á um tvær og hálfa milljón evra var undirritað af forstjóra Landsnets og fulltrúum NKT í höfuðstöðvum Landsnets í dag.

„Þetta eru umfangsmestu jarðstrengjainnkaup sem Landsnet hefur ráðist í frá stofnun fyrirtækisins en kostnaðarlega séð er það orðið sambærilegt í dag að leggja raforkulínur á 66 kV spennu í jörð og byggja loftlínur. Það er enda stefna Landsnets að öðru jöfnu að velja jarðstrengjalausnir á umræddri spennu,“ segir Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni segir að jarðstrengirnir þrír verði notaðir til að endurbæta og styrkja raforkflutningskerfið á Suður- og Vesturlandi í þremur eftirfarandi verkefnum.

Selfosslína 3, ný 28 km löng jarðstrengslögn milli Selfoss og Þorlákshafnar, sem mun auka afhendingaröryggi raforku í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi.

Hellulína 2, ný 13 km löng jarðstrengstenging milli Hellu og Hvolsvallar, sem leysa mun af hólmi núverandi loftlína á þessari leið.

Tenging nýs tengivirkis á Akranesi þar sem leggja þarf allt að fjögurra km jarðstreng.

NKT átti lægsta tilboðið, 2,35 milljónir evra, í úboði vegna kaupanna, sem felur í sér framleiðslu og flutning jarðstrengjanna til Íslands ásamt eftirliti með lagningu þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×