Viðskipti innlent

Mesti hagnaður í sögu Vodafone

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Þriðji ársfjórðungur ársins var sá besti í sögu Fjarskipta Hf (Vodafone), en árshlutareikningur félagsins var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins í dag. EBIDTA hagnaður ársfjórðungsins, sem er hagnaður fyrir fjármagnskostnað og afskriftir, fór í fyrsta sinn yfir einn milljarð og var 1.023 milljónir króna.

Jókst hann um fjögur prósent, en þessi góða niðurstaða skýrist einkum af markvissum kostnaðaraðgerðum og góðri tekjustýringu, samkvæmt tilkynningu frá Fjarskiptum. Þá jókst hagnaður félagsins eftir skatta um fimmtán prósent og var 476 milljónir króna. Hann hefur aldrei verið hærri á einum ársfjórðungi í sögu félagsins.

Framlegð jókst um sjö prósent á tímabilinu. Kostnaðarverð lækkaði um tíu prósent. Tekur drógust saman um tvö prósent og rekstrakostnaður er sex prósentum hærri en árið áður.

Eiginfjárhlutfall er nú 53 prósent og hefur aldrei verið sterkara.

„Niðurstaða þriðja ársfjórðungs Fjarskipta er ánægjuleg. EBITDA-hagnaður félagsins fór í fyrsta skipti yfir milljarð á ársfjórðungi og hefur aldrei verið meiri í sögu félagsins,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Fjarskipta.

„Góð niðurstaða skýrist helst af markvissum kostnaðaraðgerðum og tekjustýringu. Tekjur voru stöðugar en á sama tíma tókst með markvissum aðgerðum að lækka kostnaðaverð sem bætir framlegð umtalsvert. Hagnaður er einnig að aukast samhliða lægri afskriftum og sterkari efnahag félagsins og hefur sömuleiðis aldrei verið betri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×