Viðskipti innlent

Miklar launahækkanir kalla á hækkun stýrivaxta

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
VISIR/PJETUR
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru hækkaðir í 6 prósent þann 14. nóvember 2012 en hafa síðan þá verið óbreyttir. Það kom því mörgum á óvart þegar peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að ákveðið hefði verið að lækka vextina um 25 punkta, eða í 5,75 prósent.

„Þetta er heppilegur tímapunktur vegna þess að verðbólgan hefur verið núna undir markmiði bankans í níu mánuði og er útlit fyrir að hún gæti lækkað eitthvað frekar á allra næstu mánuðum,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.

Í peningamálum sem Seðlabankinn gaf út í dag er talsvert fjallað um komandi kjaraviðræður. Þar kemur fram að verði launahækkanir umtalsvert meiri en spá bankans gerir ráð fyrir, þá muni verðbólguhorfur versna töluvert.

Þá segir:

"Vextir Seðlabankans yrðu að vera hærri til að vega á móti auknum verðbólguþrýstingi sem myndi auka enn frekar á neikvæð áhrif aukins launakostnaðar. Bakslag gæti því orðið í efnahagsbatanum með hægari hagvexti og meira atvinnuleysi.”

Þannig að það er alveg skýrt af hálfu Seðlabankans, að ef laun hækka of mikið, þá hækkið þið stýrivextina aftur?

„Það fer náttúrulega eftir því hvernig aðrir þættir þróast. Okkar fókus og okkar markmið er verðbólgan. Það er okkar hlutverk að reyna að halda henni sem næst markmiði. Síðan eru ýmisir þættir sem að hafa þar áhrif, launin eru hluti af því. Og auðvitað ef að launahækkanir eru langt umfram það sem getur samrýmst verðbólgumarkmiðinu, nú þá neyðumst við bara til að láta það endurspeglast í vaxtastiginu,“ segir Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×