Viðskipti innlent

Segir Arion banka ruglað saman við Kaupþing

Haraldur Guðmundsson skrifar
Aðeins er búið að birta lista yfir hluta þeirra fyrirtækja sem um ræðir.
Aðeins er búið að birta lista yfir hluta þeirra fyrirtækja sem um ræðir.
„Þetta hefur ekkert með Arion banka að gera, þetta er eitthvað sem tilheyrir fortíðinni og Kaupþingi, og þeir sem tóku þennan lista hafa eðlilega ekki skilning á sögulegu tengingunni. Arion banki var stofnaður í kringum innlendar eignir og skuldir Kaupþings og greiðir alla sína skatta hér á landi,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion Banka, um lista Alþjóðabandalags rannsóknarblaðamanna (ICIJ) yfir 343 fyrirtæki sem hafa notað Lúxemborg sem skattaskjól.

Kaupþing er eina íslenska fyrirtækið á þeim lista og er þar sagt heita Arion banki í dag. Listinn er byggður á gögnum sem ICIJ hefur komist yfir. Samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins, DR, eiga gögnin það sameiginlegt að vera unnin af Price Waterhouse Coopers í Lúxemborg og samþykkt af yfirvöldum í borginni. DR hefur fjallað talsvert um málið eftir að gögnin voru birt og sagt þau sanna að yfirvöld í Lúxemborg hafi tekið þátt í að gera samninga sem gefi stórfyrirtækjum möguleika á að komast hjá skattgreiðslum í þeim löndum þar sem þau afla tekna.  

Á listanum má finna erlend stórfyrirtæki á borð við Amazon, Gazprom, Apple, Ikea, Lehman Brothers, Heinz, Citigroup og FedEx. Í tilkynningu ICIJ um birtingu gagnanna kemur fram að síðar verði greint frá nöfnum annarra fyrirtækja sem hafi notað Lúxemborg sem skattaskjól. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×