Viðskipti innlent

Skattar á Landsbankann hækka um 32 prósent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbanka Íslands.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbanka Íslands.
Hagnaður Landsbankans nam 20 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 samanborið við 22 milljarða króna á sama tímabili árið 2013. Hagnaðurinn fyrir þriðja fjórðung nemur 5,1 milljarði en hann nam 6,75 milljörðum á sama tímabili í fyrra.

Í afkomutilkynningu segir að lækkunin skýrist aðallega af hærri sköttum, en þeir hækka um 32% milli ára. Í heild nema tekjuskattur og sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki um 8,7 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2014. Þá segir í tilkynningunni að rekstrarkostnaður bankans sé óbreyttur á milli ára að raunvirði.

Þá kemur fram að mikill árangur hafi náðst við að lækka vanskil fyrirtækja og heimila og mældust heildarvanskil 3,3% í lok september en þau mældust 6,2% á sama tíma árið áður. Þessi lækkun vanskila hafi meðal annars skilað sér í jákvæðri virðisbreytingu útlána.

„Rekstur Landsbankans hefur gengið vel fyrstu níu mánuði ársins. Lækkun á vaxtamun og á verðbréfamörkuðum hefur áhrif til lækkunar á tekjum en á móti kemur virðisaukning útlána m.a. vegna hratt lækkandi vanskila. Bæði inn- og útlán hafa vaxið töluvert sem er til marks um vaxandi umsvif í hagkerfinu,“ segir Steinþór Pálsson, forstjóri Landsbankans, í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×