Viðskipti innlent

Vífilfell hættir framleiðslu á Diet Coke: Flöskurnar verða horfnar eftir tvær vikur

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir
Vífilfell hefur hætt framleiðslu á Diet Coke. Ísland hefur verið eina landið í heiminum þar sem Coca-Cola fyrirtækið hefur verið með þrjá sykurlausa Coke drykki á markaði, en í flestum löndum eru aðeins tvær tegundir fáanlegar.

Fyrr á þessu ári hætti Vífilfell framleiðslu á Diet Coke í tveggja lítra umbúðum og við það tækifæri var tilkynnt að síðasta umbúðastærðin, Diet Coke í 0,5 lítra flöskum, yrði tekin af markaði von bráðar.

Diet Coke hefur verið á markaði hérlendis síðan 1985. Á undanförnum árum hefur Coca-Cola fyrirtækið hins vegar kynnt tvo nýja sykurlausa Coke-drykki undir nöfnunum Coke Light og Coke Zero, og hafa þeir nær alfarið tekið við af Diet Coke.

Forráðamenn Vífilfells hafa reynt allt til að halda Diet-Coke áfram á markaði, en nú er svo komið að dyggir unnendur Diet Coke hér á landi eru ekki nógu margir lengur til að réttlæta áframhaldandi framleiðslu drykkjarins.

„Við vitum að það eru allnokkrir staðfastir Diet Coke neytendur og því viljum við láta þá vita í tæka tíð. Síðustu birgðirnar eru að fara í verslanir og eftir það verður ekki meira framleitt. Það fer því hver að verða síðastur til að tryggja sér Diet Coke áður en löngu og farsælu skeiði þess lýkur hér á landi,“ segir Jón Viðar Stefánsson, markaðsstjóri gosdrykkja hjá Vífilfelli.

Búast má við að birgðir verslana verði uppurnar eftir tvær vikur, hugsanlega þó skemur, taki miklir unnendur drykkjarins upp á því að hamstra síðustu Diet Coke flöskurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×