Viðskipti innlent

Já þarf að greiða 50 milljóna sekt

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já.hf.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já.hf.
Samkeppniseftirlitið hefur sektað Já.hf um 50 milljónir króna fyrir brot gegn samkeppnislögum. Þá er fyrirtækinu gert að veita samkeppnisaðilum aðgang að gagnagrunni sínum. Miðlun og Loftmyndir kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins eftir að hafa óskað eftir aðgangi að gagnagrunni Já í þeim tilgangi að bjóða upplýsingaþjónustu í samkeppni við Já.

„Þrátt fyrir að starfsemi Já sé ung að árum þá byggir hún á gömlum grunni forvera síns, Símans. Hefur prentaða símaskráin verið gefin út frá fyrri hluta síðustu aldar og er gagnagrunnur Já upphaflega myndaður í skjóli einkaréttar for vera Já. Sökum þeirrar aðstöðu sem Já hefur verið í frá upphafi, ræður fyrirtækið yfir eina heildstæða gagnagrunninum yfir símanúmer og rétthafa þeirra,“ segir í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.

Samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins telur Póst- og fjarskiptastofnun að verðskrá Já feli í sér mikla yfirverðalgningu á aðgangi að gagnagrunni félagsins. Samkeppniseftirlitið telur hana hafa verið til að útiloka samkeppni.

„Þrátt fyrir að forveri Já hafi lýst því yfir að aðgangur að gagnagrunninum yrði veittur á jafnréttisgrundvelli var það ekki raunin hjá Já.“

Þá segir að Já sé í markaðsráðandi stöðu og sé í raun í einokunarstöðu á markaði fyrir rekstur og heildsöluaðgang að gagnagrunni yfir símanúmer. Sem og á smásölumörkuðum fyrir þjónustu sem byggir á aðgangi að gagnagrunni fyrirtækisins.

Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins má sjá hér á heimasíðu eftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×