Viðskipti innlent

Já mun áfrýja akvörðun Samkeppniseftirlitsins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Samkeppniseftirlitið hefur í dag tilkynnt um ákvörðun sína þess efnis að sekta Já um 50 milljónir króna.

Það er byggt á þeim forsendum að Já hefði átt að veita þeim aðilum er hyggðu á samkeppni við félagið aðgang að gögnum um símanúmer með 97% afslætti frá innkaupsverði því sem Já keypti sömu upplýsingar af símafyrirtækjunum.

„Við erum forviða á þessari niðurstöðu, þessi ákvörðun er einsdæmi í Evrópu og okkur algjörlega óskiljanleg. Ekkert sambærilegt félag og Já í Evrópu ber kvaðir eins og þær sem íslenska Samkeppniseftirlitið hefur nú lagt á Já. Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins áttum við að kaupa gögn á 100% verði af símafyrirtækjunum en selja þau aftur á 3%. Það er öllum fyrirtækjum í lófa lagt að semja beint við símafyrirtækin líkt og aðilar hafa þegar gert – en hver gengur til slíkra samninga þegar þeim er gert kleift að kaupa gögnin á undirverði af okkur?,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í tilkynningu sem Já hefur nú sent frá sér.

Þar kemur einnig fram að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gangi þvert á fyrri niðurstöðu Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

Nefndin hafi tekið undir sjónarmið Já um að það sé fjarskiptafyrirtækjanna sem úthluta símanúmerum að veita heildsöluaðgang að slíkum gögnum. Tvær eftirlitsstofnanir hafa þannig komist að sitthvorri niðurstöðunni í málinu.

Já hefur boðið gögnin til endursölu samkvæmt verðskrá sem kynnt var Samkeppnisstofnun árið 1998 án athugasemda, því vekur furðu að sama stofnun komist nú að annarri niðurstöðu.

„Við höfnum því alfarið að Já hafi misbeitt meintri markaðsráðandi stöðu sinni á þessum markaði. Við höfum aldrei neitað neinum um aðgang að gagnagrunni okkar og verðskráin miðast við raunkostnað. Við munum að sjálfsögðu áfrýja málinu til úrskurðarnefndar samkeppnismála og dómstóla ef þess þarf,“ segir Sigríður Margrét enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×