Viðskipti innlent

Kristín Dagmar ráðin nýr listrænn stjórnandi Gerðarsafns

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir hefur verið ráðin listrænn stjórnandi Gerðarsafns, listasafns Kópavogs. Kristín Dagmar var valin úr hópi fjörutíu umsækjenda og talin hæfust til að gegna starfinu, að því er segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Starfið var auglýst laust til umsóknar í lok ágúst og er ráðið í það til fimm ára í senn. Kristín Dagmar mun m.a. móta listræna stefnu Gerðarsafns, skipuleggja og halda utan um sýningar þess og faglegt starf, hafa umsjón með listaverkasafni Kópavogsbæjar og annast kaup á listaverkum.

Í tilkynningunni segir að Kristín Dagmar hafi hlotið M.A. gráðu í samtímalistfræðum frá Edinburgh College of Art og B.A í listfræði frá Háskóla Íslands. „Hún hefur fjölbreytta reynslu af sýningarstjórnun og stjórnun listrænna verkefna en einnig hefur hún stýrt fræðslustarfi hjá Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands.

Meðal sýninga má nefna „Ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn“ í Listasafni Reykjavíkur - Ásmundarsafni og „Að elta fólk og drekka mjólk“ sem sett var upp í Hafnarborg. Hún var listrænn stjórnandi Sequences Art Festival í Reykjavík og er stundakennari við Listaháskóla Íslands. Nýverið ritstýrði hún bók um ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar, Dancing Horizon, sem gefin var út af Crymo­geu fyrr í mánuðinum.“

Gerðarsafn var opnað árið 1994 og stendur á Borgarholtinu ásamt Salnum, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Bókasafni Kópavogs og Tónlistarsafni Íslands. Skammt undan er Héraðsskjalasafn Kópavogs. Starfsemi þessara húsa tilheyrir Listhúsi Kópavogsbæjar en þar er nú unnið að stefnumótun fyrir menningarstarf bæjarins í heild.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×