Viðskipti innlent

Norðursalt vann til alþjóðlegra hönnunarverðlauna

Samúel Karl Ólason skrifar
Garðar Stefánsson, Søren Rosenkilde, Þorleifur Gunnar Gíslason og Albert Muñoz.
Garðar Stefánsson, Søren Rosenkilde, Þorleifur Gunnar Gíslason og Albert Muñoz. Aðsend mynd
„Við fengum verðlaun fyrir einstaka umbúðahönnun en það voru 7.069 sem sendu inn í keppnina. Þessi verðlaun eru ekki mjög þekkt á Íslandi en þetta er mjög stórt í Evrópu og alþjóðlega. Það eru ekki margar íslenskar umbúðir sem hafa fengið verðlaun í þessari keppni,“ segir Garðar Stefánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Norðursalts.

Forsvarsmenn fyrirtækisins og auglýsingastofunnar sem hannaði umbúðirnar með þeim, Jónsson & Le´Macks fóru til Berlínar um helgina og tóku á móti verðlaununum.

„Við erum mjög ánægðir með þetta og erum núna að fara að setja merkið á umbúðirnar okkar. Þetta hefur stóra þýðingu og umbúðirnar fara í alþjóðlegan bækling sem hátíðin gefur út yfir það sem þykir framúrskarandi hönnun.“

Norðursalt er komið í víða dreifingu á Íslandi, Danmörku og Þýskalandi ásamt því að vera á leiðinni í frekari sölu á Norðurlöndunum, Belgíu og Austurríki á næstu mánuðum. „Við erum að stækka við okkur hægt og bítandi.“

„Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur að vera komin með þetta merki á umbúðirnar okkar. Þetta er gæðastimpill og neytendur í norðanverðri Evrópu þekkja þetta mjög vel. Það er einmitt markaðurinn sem við erum helst að sækja á.“

Auk Red Dot verðlaunanna hafa umbúðir Norðursalts hlotið Lúðurinn frá ÍMARK, FÍT verðlaunin, ásamt því að hafa verið tilnefndir til Silfurljónsins í Cannes.

Hér að neðan má sjá myndband þar sem fjallað er um hönnun umbúðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×