Innlent

Mátti ekki segja frá tilvist dagbókar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hæstiréttur taldi rétt af skólastjóranum að afhenta dagbókina en að hún hefði brotið á friðhelgi nemandans með því að láta vita af tilvist bókarinnar til að byrja með.
Hæstiréttur taldi rétt af skólastjóranum að afhenta dagbókina en að hún hefði brotið á friðhelgi nemandans með því að láta vita af tilvist bókarinnar til að byrja með. Vísir / GVA
Skólastjóri þarf að greiða fyrrverandi nemanda hálfa milljón í miskabætur fyrir að hafa upplýst ríkissaksóknara um tilvist dagbókar nemandans. Bókin var lögð fram í máli þar sem eiginmaður skólastjórans var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart nemandanum. Eiginmaðurinn var sýknaður í málinu meðal annars á grundvelli þess sem fram kemur í dagbókinni.

Mátti ekki segja frá

Hæstiréttur kvað upp dóm í miskabótamálinu í gær en dómurinn taldi að skólastjórinn hafi rofið friðhelgi einkalífs nemandans með því að upplýsa saksóknara í málinu um tilvist dagbókarinnar. Skólastjóranum mátti að mati dómsins vera ljóst að með því að upplýsa um tilvist dagbókarinnar yrði efni hennar gert uppskátt og að slíkt myndi óhjákvæmilega rýra orðspor nemandans og gera hana ótrúverðuga í augum annarra.

Fékk bókina senda í pósti

Skólastjórinn fékk dagbókina ekki hjá nemandanum sjálfum heldur frá fyrirlesara á vegum forvarnasamtakanna Marita sem hafði verið með fyrirlestur fyrir 10. bekk skólans, þar sem nemandinn mætti. Að lokinni fræðslunni ræddi hún einslega við fyrirlesarann og sagði honum frá sínum persónulegu málefnum. Í kjölfarið sendi hún fyrirlesaranum dagbókina á rafrænu formi.

Í dómnum kemur fram að í tölvupósti með dagbókinni hafi hún gefið fyrirlesaranum leyfi til að „senda brot eða taka saman eitthvað“ fyrir tómstundafulltrúa skólans eða fræðslustjóra sveitarfélagsins sem væru „manneskjurnar sem ég væri til í að tala við“. Hún tók hinsvegar sérstaklega fram að það mætti ekki senda þeim alla dagbókina. Þetta virti forvarnarfulltrúinn ekki sem sendi alla bókina á skólastjórann.

Eðlilegt að afhenda dagbókina

Rétturinn taldi eðlilegt að skólastjórinn hafi orðið við beiðni ríkissaksóknara um að afhenda dagbækurnar þegar beiðni um það kom fram. Aðeins það að upplýsa um tilvist hennar, að því er virtist að eigin frumkvæði og í því skyni að styðja við vörn eiginmanns síns í sakamálinu á hendur honum, hafi verið brot, eins og segir í dómnum.

Nemandinn höfðaði einnig mál á hendur sveitarfélaginu þar sem skólastjórinn starfar en Hæstiréttur féllst ekki á að það ætti hlut að máli, brotið væri alfarið á ábyrgð skólastjórans.

Hæstiréttur margklofinn

Hæstiréttur klofnaði í þrennt í dómnum en einn dómaranna taldi að sýkna ætti bæði skólastjórann og sveitarfélagið þar sem ekki væri sannað að ólögmæt háttsemi skólastjórans hafi falið í sér meingerð sem veitti nemandanum rétt til miskabóta. Annar dómari taldi hinsvegar að sveitarfélagið væri líka brotlegt í málinu og að upphæð miskabótanna ætti að vera 300 þúsund krónum hærri.

Með dómi Hæstaréttar var sýknudómi héraðsdóms í málinu snúið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×