Viðskipti innlent

Íslensku félögin stundvísari en EasyJet

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flug WOWair voru stundvísust bæði hvað varðar brottfarar- og komutíma.
Flug WOWair voru stundvísust bæði hvað varðar brottfarar- og komutíma.
Mikill meirihluti fluga Icelandair og WOWair voru á áætlun hvað brottfarartíma varðar í september. 63 prósent fluga EasyJet lögðu af stað á áætluðum tíma. Dohop greinir frá og vísar í gögn frá Isavia.

Þegar stundvísitölur flugfélaga í september eru skoðaðar sést að WOWair var stundvísasta flugfélagið af þeim sem fljúga til og frá Íslandi reglulega. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet var óstundvísast. Flugin þrjú voru þau einu sem voru með fleiri en fimmtíu skráð flug á landinu í liðnum mánuði. Meðaltöf á flugum easyJet var rúmar 14 mínútur, tæpar níu mínútur hjá WOWair og tæpar tíu mínútur hjá Icelandair.

87 prósent brottfara WOWair voru á réttum tíma, hlutfallið var 85 prósent hjá Icelandair og 63 prósent hjá easyJet. Síðastnefnda flugfélagið stendur þeim íslensku nær ef litið er til komufluga á réttum tíma. 88 prósent fluga WOWair voru á tíma, 86 prósent fluga Icelandair og 77 prósent fluga easyJet. Meðaltöf hjá easyJet var rúmar sjö mínútur, tæpar sjö mínútur hjá Icelandair og rúmar sex mínútur hjá WOWair.

Flug sem seinkar um meira en fimmtán mínútur teljast vera sein. Dohop notast við tölur frá Isavia við útreikninga á stundvísi flugfélaganna. Sóttar eru upplýsingar um áætlaða brottfara og komutíma einstakra fluga og þær tölur bornar saman við raunverulegan tíma brottfara og koma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×